Útrunninn

Getur einhver sagt mér af hverju má ekki geyma ávaxtasafa í opinni fernu í kæli lengur en 3 daga? Kemur eitrun í safann og ef svo er, finnst það þá ekki á bragði og lykt? Sjálf hef ég oft drukkið háaldraðan ávaxtasafa og aldrei orðið meint af. Ég er reyndar með óvenju sterkan maga svo kannski er það ekki alveg að marka.

Munar ekkert um tittlingaskít

Ríkissjóður tönnslast á því að við munum ekkert finna fyrir því ef við setjum 5000 kall á mánuði í sparnað. Vel má það vera en eitt finnst mér mótsagnakennt. Um áramótin hækkuðu laun ríkisstarfsmanna. Laun þeirra sem eru í 8.launaflokki, 5. þrepi hækkuðu t.d. um 4241 kr á mánuði.

Og nú spyr ég, fávís konan, hversvegna býður Ríkissjóður starfsfólki sínu launahækkun, sem hann sjálfur telur svo ómerkilega að engar líkur séu á að hún skipti launþegann nokkru máli?

Fabla fyrir Elías

Beið uns veðrinu slotaði.

Og beið.

Á fertugasta degi kom hann fljúgandi yfir hafið.
og benti á glottköttinn
standandi á haus
út við sjóndeildarhringinn.

Þó hafði hann blaðgrænu í augum
og færði mér ólívuviðargrein.

 

Stefnum hærra

Manninum ku víst vera eiginlegt að setja sér markmið. T.d. að ljúka doktorsprófi eða verða Ólympíumeistari. Ég hef líka markmið. Ég ætla að vera algjörlega laus við appelsínuhúð (fallegt orð yfir mörkögglaáferð) á afmælinu mínu. Allt útlit er fyrir að ég nái því löngu áður.

Kannski ætti ég að setja mér aukamarkmið svo ég koðni nú ekki niður í vesældóm og hégómaleysi. Ég gæti t.d. sett mér það markmið að hengja upp úr þvottavélinni áður en þvotturinn fer að mygla.

 

Tryggðarof

Ætli fólk upplifi það almennt sem ákaflega dramtískan viðburð að skipta um banka?
Þegar allt kemur til alls virðast flestir halda sig við sama bankann lengur en sama makann.

 

Bragð

-Hæ?
-Já ég er vöknuð. Góðan dag.
-Ertu búin að taka eftir því að ég svaf hjá þér?
-Svafstu eitthvað, eða lástu bara og horfðir á mig slefa á koddann?
-Ég svaf. Steinsvaf. Og vaknaði hjá þér. Beittirðu einhverskonar galdri?
-Ég held að yfirleitt sé það nú ekki kallað galdur en ef það virkar þá er ég sátt.
-Fokk já. Það virkar.
-Þá vitum við hvað við þurfum að gera næst.
-Ég gæti lifað með því Eva. Ég gæti algjörlega lifað með því. Halda áfram að lesa