Blessað barnalán

Jæja. Þá er Pysjan væntanlega kominn til Baunalands. Fór í loftið kl 7 en var byrjaður að reka á eftir mér kl 3 í nótt þótt allt væri tilbúið til brottfarar og bíllinn fullur af bensíni rétt fyrir utan. Hann ætlaði sko ekki að standa í röð í 2 tíma. Ég hef reyndar aldrei lent í óþolandi langri biðröð úti á Keflavíkurflugvelli en hann var búinn að klína þráhyggjunni á i-pod sem hann ætlaði að kaupa í fríhöfninni svo það var engu líkara en að við værum að flýja bæði snjóflóð og Gestapo. Halda áfram að lesa

Bjargvættur Bauna

Í fyrramálið heldur Pysjan til Danaveldis þar sem hann mun þreyta inntökupróf í sérlegan Bjargvættaskóla. Það er svosem ekki eins og ég sé neitt óvön því að hann sé að heiman mánuðum saman og reyndar var hann að vinna í Danmörku síðasta sumar. Samt finnst mér þetta eitthvað svo stórt skref. Líklega bara af því að ég hef ekki hugmynd um hvenær hann kemur aftur.

Aðskilnaðarstefnunni hefur verið aflétt

Í tilefni af því endaði ég bestu helgi sem af er árinu á því að drekka kapútsínó á þremur kaffihúsum sem mér hefur verið iðulega verið meinaður aðgangur að síðustu 6 árin. Ég hef að vísu ekki orðið fyrir því að neinn hafi beinlínis bent á mig og rekið mig út af veitingahúsi en oft hef ég hrakist út vegna reykeitrunar. Þeir dagar eru nú á enda runnir.

Ég átti hálfpartinn von á því að kaffihúsin væru hálftóm og að hvarvetna væru reykfíklar hímandi við anddyrin. Ég sá einn mann reykjandi fyrir utan veitingastað og þessir þrír sem ég fór inn á eru ekkert að fara á hausinn.

 

Lítið ljós

Uppáhaldsviðskiptavinurinn okkar í Nornabúðinni, hann Árni Beinteinn, var í Kastljósinu á föstudaginn.

Þessi strákur er þegar búinn að ná langt en auk þess að vera hæfileikaknippi þá er hann svo indæll og skemmtilegur að í raun ættu Félags- og Menntamálaráðuneytið að gera hann upptækan og ferðast með hann um landið sem sýnidæmi um afleiðingu af jákvæðu hugarfari og góðu uppeldi.

 

Ég boða yður mikinn fögnuð

Eftir nokkrar mínútur hefst merkilegur dagur. Réttur þeirra sem þola ekki tóbaksreyk til að sækja veitingastaði hefur verið viðurkenndur. Reyndar hefði ég viljað að mannréttindi barna til reyklauss heimilis hefðu fyrst verið tryggð. Börn hafa náttúrulega ekki kosningarétt svo sjálfhverfir foreldrar fá líklega að níðast á öndunafærum þeirra án afskipta ríkisvaldsins þar til einhver fanatíkusinn sem ekki gúterar rétt foreldra til að eitra fyrir börnum sínum gerir það sem best virkar; að verða bara gjörsamlega brjálaður.

Mér skilst að Kormákur og Skjöldur ætli að benda á Siv (líklega nokkuð snúðiglega) ef nágrannar kvarta undan hávaða frá tóbaksfíklum sem svala fíkn sinni á götum úti. Sennilega er þetta þarfasta verkið sem sú lufsa hefur unnið í sinni ráðherratíð svo ég vona nú að fáir gerist svo vitlausir að telja hana ábyrga fyrir skrílslátum einhverra fíkla. Ég kann gott ráð við nágrannakvörtunum; göngum bara skrefinu lengra og bönnum þennan viðbjóð á almannafæri.