Galdrafólk á stoppistöð

Þegar ég kom að stoppistöðinni var þar fyrir karl um sjötugt. Hann gaf sig að mér og reyndist hinn almennilegasti. Karl og kona, bæði sennilega um sextugt komu aðvífandi, voru með vegakort og spurðu hvar þau væru stödd. Konan var með lillablátt hár sem stóð undan röndóttri prjónahúfu og sérkennilega leðurtuðru í axlaról. Karlinn var í víðum kufli sem var festur saman með silfurspennu í hálsmálinu og með skotthúfu sem náði honum niður á bringspalir.

Hinn nýi félagi minn spurði hvort þau væru að koma úr Hrekkjavökuteiti.“Nei ég er galdramaður“ svaraði skotthúfan blátt áfram en hafði ekki fleiri orð um það. Þau gengu nokkur skref frá okkur með kortið og voru greinilega að reyna að komast að niðurstöðu um það hvert þau ættu að fara. Gamli hallaði sér að mér og hvíslaði: „Galdramaður, huh! ÉG er galdramaður og ekki klæði ég mig eins og skrípi.“

„Mér finnst gaman að sjá fólk sem sker sig úr fjöldanum“ svaraði ég. „Finnst þér ekkert ótrúlegt að ég sé galdramaður, svona til fara?“ spurði hann og togaði í treyjuna sína. „Nei, alls ekki. Fólk gengur venjulega ekki í einkennisbúningi nema í vinnunni, svo mér finnst það ekkert ótrúlegra en hvað annað.“ Hann gaut augum á skotthúfuna og brosti sigri hrósandi, rétt eins og hann hefði unnið pissukeppni sem hinn tók þó engan þátt í.

Deila færslunni

Share to Facebook