Meistaranemandi í Lagadeild HÍ: Það fer alveg eftir kennaranum hvrenig er best að byggja upp ritgerðarspurningar. X vill fá umfjöllun um meginreglur en Y hefur aðallega áhuga á undantekningum.
Tekið skal fram að X og Y kenna hvor sinn hluta í sama námskeiði og að ekki eru neinar vísbendingar um það í prófspurningum hvort beri að leggja áherslu á meginreglur.
***
Lögfræðingur sem útskrifaðist fyrir nokkrum árum: Þið getið alltaf gert ráð fyrir því þegar eru margar krossaspurningar að ca 10% snúist um smáatriði eða séu úr neðanmálsgreinum. Það er gert til þess að greina á milli góðra nemenda og afburðanemenda.
Afburðafólk er semsagt það sem kann allar neðanmálsgreinarnar utan að.
***
***
Starfandi lögmaður: Leggðu áherslu á að læra utan að allt sem kemur frá kennaranum sjálfum. Þú verður að athuga að þetta fólk er almennt hugfangið af eigin skrifum.
Ég sannfærðist um að þetta væri rétt þegar ég var að undirbúa mig með því að skoða gömul próf og sá prófspurningu þar sem spurt var um hvað fræðimaðurinn Skúli Magnússon hefði sagt um afstöðu Sigurðar Líndal til tiltekins efnis. Ég mundi hvað Sigurður Líndal sagði um efnið og ég mundi hvað Skúla sjálfum fannst um efnið en ég mundi ekki hvaða skilning Skúli hafði lagt í orð Sigurðar í umræddri grein.
***
Útskrifaður nemandi sem kenndi á undirbúningsnámskeiði fyrir próf: Það er dálítið erfitt að gefa góð ráð því nú eru nýir kennarar með námskeiðið og ég veit ekki hvað þau vilja fá fram.
Hér er viðskiptatækifæri fyrir langt komna og nýútskrifaða laganema; gefið út kennaralykla. Þetta virðist nefnilega vera spurning um að kunna á kennarann ekki síður en að kunna námsefnið.