Sjónhverfingar 2 – augnpokar

Augnpokarnir á mér eru farnir að sveiflast upp fyrir augu þegar ég geng stiga. Sem kemur reyndar ekki að sök þar sem ég hef ekki gengið stiga síðan 14. janúar. Verra með útlitið.

Á youtube er hægt að finna fullt af kennslumyndböndum sem eiga víst að kenna manni að hylja augnpoka. Fyrirsæturnar eru 18 ára og ekki með neina augpoka. Aðaltrixið er víst að lýsa svæðið undir pokanum til að draga úr áhrifum skuggans. Það virkar bara ekki rassgat. Allavega ekki fyrir mig.

Á þessari mynd var ég t.d. búin að kítta, spartla, lýsa og lýsa meira og myndin er samt blekkjandi, þetta er talsvert verra ríl.

Ef maður snýr mót birtu og horfir beint fram sjást þeir síður

Nema manni verði það á að hlæja

Það er semsagt ekki hægt að umgangast skemmtilegt fólk nema hætta á að gæðin komi í ljós. Það er auðvitað hægt að halda alltaf fyrir augun þegar maður hlær, ég er ekki búin að prófa það. Svo er líka hægt að vera bara alltaf grafalvarlegur og segja bara „læk“ eða „broskall“ til að láta fólk vita að það sé skemmtilegt. Gallinn er sá að þegar maður er með stórt granastæði þá verður maður frekar apalegur útlits með samanklemmdan munn.

Auðvitað má þjálfa sig í að brosa án þess að kipra augun en þessi svipur gæti knúið viðstadda til að gefa manni góð ráð gegn harðlífi

Semsagt, til þess að láta augnpokana hverfa þarf maður að snúa alltaf þannig að birtan falli beint á andlitið. Til að það sé hægt gæti reynst nauðsynlegt að taka ljóskastara með sér á mannamót. Mikilvægt er að horfa alltaf beint fram, ekki líta upp, niður eða halla höfðinu. Viðmælendum gæti reyndar þótt það óþægilegt en vel má sjá við því með því að gera sér upp blindu. Það hefur líka þann aukabónus að maður getur haft með sér hund en hundurinn dregur einnig athyglina frá augnpokunum. Forðist ennfremur allt sem vekur hlátur og ef þið neyðist til að brosa, brosið þá aðeins með munninum og komið því að við viðstadda að hægðirnar séu í fínu lagi, svona til að komast hjá því að umræðurnar verði mjög  óþægilegar.

Meiköpptrixið að smyrja lýtafarða undir pokana virkar ekki. Ekki nema maður sé 18 ára. Það má auðvitað reyna að semja við djöfulinn en pokurinn sveik mig svo ég get ekki mælt með honum að þessu leyti. En svo er það blessuð tæknin…

desktop1

Ég er búin að leggjast undir hnífinn einu sinni og finnst ekki alveg kominn tími á það aftur. Hef ekki prófað þessa græju en síríjösslí???

Svo má alltaf stofna sjálfsblekkingar-hreyfingu og krota „eye bags are beautiful“ á strætóskýli. Það er allavega auðveldara en að  reyna að mála pokana burt með meiki og maður blekkir engan nema kannski sjálfan sig og myndavélina hvort sem er.

Deila færslunni

Share to Facebook