Þegar Gvuð skapaði manninn í sinni mynd hefur hann sennilega verið með atvinnusköpun í huga. “Vér viljum skapa mann eftir mynd vorri, svo heilsufrömuðir, snyrtifræðingar, tískuhönnuðir, hárfríðkur og ljósmyndarar, þurfi ekki að sækja um listamannalaun” hefur hann hugsað. Gvuð er nefnilega annaðhvort feitur eða hrukkóttur, gott ef hann er ekki sköllóttur og með lítið typpi og sigin brjóst og bólur í þokkabót.
Hrukkuleysi er blessun feita fólksins. Lífstykki og flíkur sem blekkja augað gera svo gæfumuninn og með hárgreiðslu og fagmannlegri förðun geta allir orðið ægifagrir.
Eða a.m.k. aðlaðandi.
Ekkert kemur þó í staðinn fyrir góða myndvinnslu.
Myndir sem líta út eins og fólki sé úr plasti, orka yfirleitt óþægilega á mig. En fokk í helvíti, ég verð að viðurkenna að þetta er bara bjútífúl.
Ég er hætt við að fara í megrun. Bæti frekar á mig spiki. Það er nefnilega hægt að klæða af sér verstu keppina en það er svo mikil vinna að spartsla í hrukkur að ég á aldrei eftir að nenna að gera það daglega.
Ég er á leiðinni í bæinn með yndislega, gáfaða, hrukkótta, skemmtilega, gráhærða, hugmyndaríka, hjartahlýja manninum mínum sem elskar lærapokana á mér og finnst ég falleg nývöknuð, krumpuð í framan og með hárið út í loftið en finnst samt gaman að sjá mig vel tilhafða. Hann ætlar að kaupa handa mér falleg föt og hlutgera mig í druslur.
Ég ætla að biðja hann að gefa mér fótósjopp í afmælisgjöf – og allt verður fullkomið.