Stjórnmálakonur krefjast þess að allir karlar taki ábyrgð á kynferðisofbeldi og áreitni. Mannkynið skiptist semsagt í tvo hópa; konur, sem eiga undir öllum kringumstæðum ægilega bágt, og karla, sem bera ábyrgð á öllum þessum bágindum kvenna. Ætli það þætti viðeigandi að karlar krefðust þess að allar konur tækju ábyrgð á umgengnistálmunum? Ekki fylgir kröfunni nein lýsing á því hvernig þeir eigi að taka ábyrgð en hinsvegar fylgja nokkrar reynslusögur af slíku „ofbeldi“.
Mér finnst það undarleg hugmynd að allir karlmenn eigi að taka ábyrgð á kynferðisofbeldi annarra en nú hefur gott fólk útskýrt fyrir mér að þetta sé í raun bara krafa um að menn reyni að koma í veg fyrir kynferðisofbeldi ef þeir verða vitni að því. Samkvæmt því er algengt að menn horfi upp á nauðganir og kynferðislega áreitni án þess að gera neitt í því. Það á svosem við um öll afbrot að of margir horfa aðgerðarlausir á en á það eitthvað sérstaklega við um karlmenn?
Eða er „kynferðisofbeldið“ sem allir karlmenn eiga að taka ábyrgð á, framkoma af því tagi sem lýst er í þessum reynslusögum?
Sumar þessara frásagna hafa ekkert með kynferðisofbeldi að gera. Nema það sé orðin „kynferðisleg áreitni“ að bjóða konu aðstoð því þannig er verið að undirstrika valdahlutföll. Einhver karl sagði konu að hún væri með röddina í stjórnmál, einni var sagt að hún væri sexý. Brandari sem fyrrverandi borgarstjóri sagði í veislu er einnig „kynferðisleg áreitni“. Svo eru þarna nokkur dæmi um ótilhlýðilega framkomu svosem komment á brjóstaskoru, og jafnvel kynferðslega áreitni en flestar eru þessar frásagnir almennar og óljósar. Einni hefur hvað eftir annað verið hótað nauðgun en ekki fylgja neinar skýringar á því hversvegna í ósköpunum konan tilkynnir ekki slíkar hótanir til lögreglu. Einnig er minnst á „óstaðfestar sögur“ af einhverjum tilteknum manni sem er þó ekki nafngreindur. Smart að hafa dylgjur með í svona yfirlýsingu.
Er það þessi framkoma sem allir karlar eiga að taka ábyrgð á með því að skipta sér af henni þegar þeir verða hennar varir? Er það virkilega krafan að vandlætingarher komi æðandi í hvert sinn sem konu er sagt að hún sé sæt eða í hvert sinn sem einhver segir brandara á kostnað kvenna? Ef svo er, þá er verið að biðja um sérdeilis ógeðfellda tegund af eftirlitssamfélagi. Samfélag þar sem borgararnir sjálfir ástunda eftirlit hver með öðrum. Samfélag þar sem húmor, daður og hverskyns athugasemdir, andstyggilegar sem og sakleysislegar, eru skilgreindar sem kynferðisofbeldi.
Er þetta fólk ekki með öllum mjalla?