Sáum Njálu í Borgarleikhúsinu í gærkvöld. Einhverju hefur slegið saman hjá mér því ég taldi mig hafa séð Jón Viðar hrósa sýningunni en áttaði mig fljótlega á því að það hlaut að vera misskilningur. Hún er skemmtileg en skortir dýpt, ofurfeminísk sýning og yfirmáta sjálfhverf þar sem áhorfandinn er ekki aðeins sífellt minntur á að hann er í leikhúsi, heldur einnig á að leikendur beri nöfn og eigi sér feril.
Það er ekkert nýtt að handritshöfundar og leikstjórnar noti leikhúsið sem kassa til að röfla á og sjálfsagt að listamenn noti sjálfa sig sem efnivið. Ég skil hinsvegar ekki til hvers er verið að blanda Njálu í þessa kraftmiklu og á köflum ofhlöðnu sýningu, en aðstandendur hennar virðast vera töluvert hrifnari af sjálfum sér og Helgu Kress en Brennu-Njáls sögu.
Flott umgjörð en skortir dýpt
Svo sanngirni sé gætt, skal tekið fram að það er margt vel gert í þessari sýningu. Umgjörðin öll er geysilega vel heppnuð. Sviðsmyndin skemmtileg, leikgervi og búningar hæfa þessari uppsetningu mjög vel, ljósanotkun hrífandi. Verulega flott tónlist og sum dansatriðin firna flott. Hinsvegar fær maður á tilfinninguna að allar þær skemmtilegu hugmyndir sem upp komu við undirbúning hafi verið notaðar, án tillits til þess hvort þær hæfðu efninu eða einu sinni án tilraunar til þess að sýna fram á að þær komi því nokkuð við. Tenging Njáls við Jabba the Hutt er t.d. með öllu óskiljanleg og virðist fremur til þess gerð að gefa búningahönnuðinum tækifæri til að spreyta sig en að þjóna sögunni. Sköpunargleðin ber smekkvísina ofurliði, hér er of mikið af öllu, blóðbað ætti að vera tragískt og hryllilegt en þegar blóði er slett linnulaust verður maður ónæmur fyrir því og í lokin er það orðið álíka ógnvekjandi og glassúr. Leikarar standa á öskrunum stóran hluta sýningarinnar án þess að það auki áhrifamátt þeirra að ráði og dansarar hoppa, stökkva, engjast og iða. Tekið er tekið fram, undir öllu iðinu, að sagan sé kynósa en túlkunin á meintri samræðisfýsn er fremur óspennandi hjakk, hvorki fallega erótísk né nógu ruddaleg til að snerta blygðunarkennd áhorfandans.
Sýningin er að uppistöðu skrípaleikur og stórfín sem slík, það er sjálfsagt að grínast með Njálu og afskræma hana eins og önnur verk. Hinsvegar virðist sem um leið sé ætlunin að hræra hjarta áhorfandans; koma til skila hinum harmrænu atburðum sögunnar, svo sem vígi Gunnars, vígi Höskuldar Hvítanessgoða, heift Hildigunnar og brennunni. Það tekst engan veginn enda hvorki við því að búast, eftir allt þetta skrípó, að áhorfandinn né leikendur taki þetta afskræmda afbrigði af Njáli alvarlega, finni til samúðar með Hildigunni og hrolli yfir hefndarhug hennar eða hneykslist á framgöngu Skarphéðins.
Persónusköpun
Persónurnar eru svona misvel heppnaðar. Brynhildur Guðjónsdóttir er furðu sannfærandi sem Njáll – sem verður að teljast hreint afrek í þessu skrípalega gervi. Öll kómísku atriðin eru að mínu mati vel heppnuð og leikurinn góður þar sem grínið er í fyrirrúmi. Hinsvegar missir alvaran marks og það kemur niður á leik og persónusköpun. Í meðförum þess stórfína leikara, Hjartar Jóhanns Jóhannssonar, orka svívirðingar Skarphéðins fremur á mann sem dónaleg hróp glæpamanns en yfirvegað og kjarnyrt níð af hálfu svörtustu hetju sögunnar. Ef til vill má skrifa það á leikstjórnina því Hjörtur Jóhann sýnir annars stórleik, ekki síst í brennuatriðinu, sem þó missir marks, eftir allt iðið, argið, og kynuslann.
Þrátt fyrir áherslu aðstandenda á feminíska bókmenntatúlkun er sú Hallgerður sem hér birtist gjörsamlega laus við að vera sympatísk enda tækifærin til þess að vekja samúð með henni vannýtt. Ofbeldi af hálfu fyrri eiginmanna hennar hefði gefið ágætt tilefni til að skýra óvægna afstöðu hennar til Gunnars, eftir að hann rekur henni kinnhestinn, en löðrungar fyrri eiginmanna fara fyrir ofan garð og neðan. Þjóstólfur gerir heldur ekkert fyrir Hallgerði. Lovísa Ósk Gunnarsdóttir sýnir geggjuð svipbrigði og hefði vafalítið notið sín í hlutverki sem hentaði útliti hennar en sá Þjóstólfur sem sagan segir frá er ekki falleg kona sem rotar naut með augnaráðinu, heldur karl, dólgslegur í framgöngu og fyrirferðarmikill. Hann hefði þurft að vera trúverðugri því uppfóstur Hallgerðar hjá honum er augljós skýring á harðlyndi hennar enda sagt berum orðum í sögunni að hann sé henni „enginn skapbætir“. Einnig er á það bent – þótt í öðru samhengi sé – að fjórðungi bregði til fósturs. Það þarf ekki einu sinni fórnarlambsfeminisma til að gera Hallgerði að píslarhetju en Hallgerður leikverksins er alveg jafn óviðfelldin og Hallgerður sögunnar.
Lítið með Njálu að gera
Nú vill svo til Njála er vel kynnt og má ætla að flestir Íslendingar þekki söguna nógu vel til að átta sig á samhenginu. Sá sem ekki þekkir söguna er þó litlu nær um söguþráðinn að sýningu lokinni, til þess er sagan allt of sundurslitin og óljóst hvaða atriði tilheyra sögunni og hvaða atriði eru innskot. Það á vafalaust að vera hluti af snilldinni, enn eitt dissið á hugmyndina um að Njála og aðrar Íslendingasögur séu höfundaverk. Og það hefði kannski heppnast ef höfundar eða ekkihöfundar þessa skrípaleiks hefðu eitthvað í höfund Njálu að gera. En svo er nú ekki.
Í meðförum Borgarleikhússins er Njála ágætis afþreying en sýningin er stórlega ofmetin og hana skortir dýpt. Tengingin við menningu og list nútímans og kynlegar kenningar Helgu Kress eru átakanlega kjánalegar í samanburði við hið dramatíska bókmenntaverk Brennu-Njáls sögu. Þetta er flott sýning, alveg hreint glæsileg skrúðganga – en keisarinn er nakinn.