Snorri í Betel er fordómafullur asni. Hann hefur verið fordómafullur asni í marga áratugi og því þarf ekki að koma neinum á óvart þótt hann hafi haldið áfram að vera fordómafullur asni eftir að hann fékk kennarastöðu á Akureyri.

Það má vissulega deila um það hvort eigi yfirhöfuð að ráða fordómafulla asna í kennarastöður en nú sitja skólayfirvöld í Brekkuskóla uppi með hann. Og það vill svo til að á Íslandi ríkir trúfrelsi (allavega að nafninu til) og tjáningarfrelsi, sem að sjálfsögðu takmarkast við hatursboðskap og meiðyrði. Skólayfirvöld eiga ekkert með að fara að leika einhverja löggu þótt maðurinn sé fáviti.

Mannréttindadómstóll Evrópu hefur komist að þeirri niðurstöðu að það flokkist ekki sem hömlur á tjáningarfrelsi að hindra menn í að dreifa niðrandi áróðri um samkynhneigða í skólum og er það vel. Þetta mál er dálítið öðruvísi þar sem boðskapnum var ekki dreift í skóla og ekki settur fram á sama hátt. Auðvitað má þó vel spyrja hvort Snorri hafi farið yfir mörk tjáningarfrelsisins með því að segja, sem satt er, að samkvæmt því sem evangeliska kirkjan boðar, séu mök samkynhneigðra dauðasynd. Meintur hatursáróður felst þá væntanlega í því að taka undir sjónarmið trúarstefnu sem Þjóðkirkjan viðurkennir. Byggir reyndar tilveru sína á, þótt hún hafi loksins aflagt kerfisbundna mismunun, eftir marga ára baráttu samkynhneigðra, stuðningsmanna þeirra og presta sem átta sig á því að þróun mannréttinda stoppaði ekki fyrir 2000 árum.

Telji menn í alvöru að Snorri hafi brotið lög, á að sjálfsögðu að kæra hann. Verði niðurstaðan sú að ummæli hans séu saknæm, á hann vitanlega ekki að kenna en þá er væntanlega rökrétt að banna boðskap evangelísku kirkjunnar.  Einnig vaknar þá sú spurning hvort ýmsir prestar, sem og séra Karl Sigurbjörnsson, hafi þá ekki löngum gerst sekir um að dreifa hatursáróðri gegn trúleysingjum og hvort slíkir menn megi kenna í grunnskólum – ja eða bara taka að sér fermingarfræðslu. Þetta er svolítið snúið og ég verð að játa á púkinn á fjósbitanum skemmtir sér prýðilega.

Séu orð Snorra um dauðleika homma og lesbía ekki ólögleg, er út í hött að skólayfirvöld séu að skipta sér af þessu. Maðurinn býr við trúfrelsi og svo fremi sem hann brýtur ekki lög er honum heimilt að tjá trúarafstöðu sína á opinberum vettvangi.

Eiga foreldarar barna í Brekkuskóla þá bara að sætta sig við að forpokaður hommahatari kenni börnunum þeirra? Ég sé enga ástæðu til þess. Það er nefnilega vel hægt að fara aðra leið til að losna við kennara en þá að reyna að fá skólastjóra til að valta yfir tjáningarfrelsi þeirra.

Það er alltof algengt að fólk telji sig vera ofurselt lagabókstafnum. Að það fyrsta sem því dettur í hug ef einhver hegðar sér eins og asni, sé að klaga í yfirvaldið. Yfirvöld eiga ekki að reyna að hefta tjáningarfrelsi fólks nema það brjóti beinlínis gegn lögum. En það er ekki þar með sagt að almenningur þurfi að láta bjóða sér upp á eitthvert rugl. Foreldar geta vel tekið upp símtól eða sent tölvupóst og lýst áliti sínu á fordómum hans. Þeir geta líka sagt börnunum sínum sem satt er, að Snorri sé fordómafullur asni, og óþarft sé að bera neina virðingu fyrir skoðunum hans á samkynhneigðum. Þau neyðist að vísu til að sýna honum lágmarks kurteisi í skólanum en því verði tekið af fyllsta skilningi  heima fyrir ef þau langi að ulla á hann utan skólalóðar.

Eiga foreldar ekki að kenna börnum sínum kurteisi? Jújú, vissulega en allt hefur sín takmörk. Uppeldi barna er á ábyrgð foreldra og það er sjálfsagt mál að kenna börnum að tjáningarfrelsi megi nýta til að lýsa fyrirlitningu á mannvonsku og menningarhroka. Það er þessvegna allt í lagi að leyfa börnunum að ulla á fordómafulla asna sem ráðast gegn mannréttindum minnihlutahópa. En í nafni skoðanafrelsis, lýðræðis og beinna aðgerða, kennið þeim ekki að klaga í yfirvaldið í hvert sinn sem einhver gerir sig sekan um fávitahátt.