Herrar mínir og hórur… Það þarf víst enginn að undrast þótt þessum bráðskemmtilega brandara hafi verið illa tekið.
Hórur þykja ekki fínar. Það eru ekki nema um 70 ár síðan íslensk hegningarlög virtu nauðgara það til refsilækkunar ef þolandinn hafði orð á sér fyrir lauslæti og enn er langt frá því að stigmanu hafi verið aflétt. Konan sem kærði Strauss Khan varð marklaus um leið og hún var orðuð við vændi og það er góð ástæða fyrir því að vændiskonur standa sjaldan í því að kæra kynferðsofbeldi. Nei, hórur þykja ekki par fínar. Nógu slæmt að vera drusla en að þéna á lauslæti sínu, það gengur út yfir öll velsæmismörk. Sjaldan er spurt um siðferði þeirra sem þéna á fyrirlitningu sinni á fátækum og fáfróðum, geðheilsu þeirra sem hafa atvinnu af því að kúga fólk með vopnavaldi eða sjálfsvirðingu þeirra sem hafa atvinnu af því að stuðla að ofdrykkju annarra. Þegar hinvegar kyn og klám er annarsvegar standa menn (konur eru líka menn) á öndinni af vandlætingu. Hórur eru siðlausar konur, skemmdar og auðvitað algerlega lausar við svokallaða sjálfsvirðingu (sem virðist merkja að haga lífi sínu í samræmi við hugmyndir siðapostulanna.) Eina skammaryrðið notað um konur sem slær hórustimplinum við er orðið feminazisti.
Flestar konur eru í hæsta máta ósáttar við að vera kallaðar hórur, jafnvel þær sem liggja mann og annan sér til skemmtunar og þar sem flestar konur eru semsé ekki hórur, þá hefði þetta karlbarn mátt reikna með hörðum viðbrögðum. Sennilega hefði „brandarinn“ heldur ekki hitt í mark ef skemmtikraftur hefði ávarpað fjölmenningarhátið með orðunum góðir Íslendingar og erlenda glæpahyski eða mannréttindaráðstefnu með orðunum kæru mannúðarsinnar og feminazistar.
Já, skamm bara Jónsi, svona segir maður ekki. Svona raup afhjúpar nefnilega ekki bara þá fordóma að flestar ef ekki allar konur noti kynlíf sem gjaldmiðil heldur líka kvenfyrirlitninguna sem felst í því að leyfa sér að ávarpa konur með starfsgreinarheiti sem meira stigma er bundið við en nokkurt annað kvennastarf. Það er lítill munur á því að vera hóra og glæpamaður, jafnvel þar sem vændi er löglegt.
Jamm, sveiattan bara og hananú en ég velti því samt fyrir mér hvort viðbrögðin hefðu orðið jafn hörð ef kona hefði ávarpað fylliríissamkomu með orðunum dömur mínar og nauðgarar.
Fráleitt? Já, maður hefði nú kannski haldið það. Ekki eru allir karlar nauðgarar, ekki fremur en allar konur eru hórur. Og jafnvel þeir karlar sem sýna nauðgaralega framkomu með lélegum karlrembuhúmor og kvenfyrirlitningu, eru sjaldnast nauðgarar í raun, ekki frekar en stúlkur sem klæða sig eins og druslur og hegða sér hórulega eru líklegar til að krefjast greiðslu fyrir lauslæti sitt. Dömur mínar og nauðgarar hefði ekki verið agnarögn skárra. Eða hvað?
Stundum vottar fyrir tilhneigingu til að berjast gegn kvenfyrirlitningu með karlfyrirlitningu. Mér finnst það sorglegt og hef litla trú á að það skili árangri. Ég hef t.d. heyrt orðróm um að í fyrirhugaðri druslugöngu, hyggist hópur kvenna dreifa ‘minnismiða’ með þessum „forvarnahugmyndum“. Ég vona að þessi orðrómur sé byggður á misskilningi. Að bjóða góðum manni upp á þau skilaboð að sú staðreynd að hann er með typpi og pung, geri hann að sennilegum nauðgara og að eina leiðin til að draga úr líkunum á því að hann fremji kynferðisglæp sé sú að tala við hann eins og hann sé fáviti, það er nefnilega ekki hótinu skárra en að segja konu að þar sem hún sé með píku megi ganga út frá því að hún sé hóra. Reyndar er það verra því nauðgun er ofbeldisglæpur en hórkaup eru valkvæð og sjaldgæft að kúnninn verði fyrir óbætanlegum sálarskaða þótt hann ‘lendi í’ því að greiða fyrir dráttinn.
Mér finnst frábært að til skuli vera fólk sem helgar sig því markmiði að vinna gegn kynferðisofbeldi og það er í rauninni ekkert skrýtið þótt viðbjóðurinn sem það fólk verður vart við gangi fram af því og ali af sér nýja fordóma; þá hugmynd að karlmenn séu einfaldlega ógeð. En það eru sem betur fer fordómar. Flestir karlmenn eru nefnilega ekki ógeð og nauðgarar. Ekki frekar en flestar konur eru druslur og hórur.