Enn eitt málið komið upp. Enn eitt málið þar sem móðir afneitar, samþykkir, hylmir yfir eða réttlætir kynferðislega misnotkun á sínu eigin afkvæmi. Enn eitt málið þar sem þolandinn þarf ekki aðeins að kljást við brotamanninn og réttarkerfið, heldur líka fjölskyldu sína, móður sína.

Er nokkuð hægt að ráðleggja stúlkum sem verða fyrir misnotkun, annað en að halda sér saman? Ávinningurinn af því að segja frá er eingöngu sá að með því dregur úr líkunum á að það sama hendi systkini þeirra. Skaðinn sem það veldur þeim sjálfum er hinsvegar ómælanlegur. Móðirin gerir venjulega ekkert í málinu fyrr en misnotkunin er búin að viðgangast árum saman og nánast aldrei fyrr en karlinn fer frá henni. Þá er kjörið að nota harmleikinn til ná fram hefndum. Ef ekki kemur til skilnaðar áður en stelpan segir frá því sem kom fyrir hana, tekur móðirin að sér að letja hana til að kæra og jafnvel að telja stúlkunni trú um að hún sé ábyrg fyrir brotinu. Í sumum tilvikum verður uppljóstrunin til þess að þolandinn missir fjölskyldu sína.

Ég er ekki í nokkrum vafa um að stundum valda viðbrögð móðurinnar við kynferðisbrotamálum meiri skaða en misnotkunin gerði en samt sem áður man ég ekki eftir einu einasta máli þar sem sérstök athygli hefur verið vakin á vanrækslu og meðsekt móðurinnar. Ætli við tækjum eins á málunum ef faðir léti kynferðislega misnotkun viðgangast árum saman, vitandi hvað var í gangi, þegði yfir því, útvegaði gerandanum þægilegar aðstæður til framkvæmda, reyndi að koma í veg fyrir að brotið yrði kært, bryti dóttur sína niður og eyðilegði samband hennar við systkini sín og aðra í fjölskyldunni?

Hvenær ætlar almenningur og löggjafinn að hætta að líta á þessar mæður sem saklaus fórnarlömb og horfast í augu við að þær eru ekkert annað en þátttakendur í glæp?