Í sumar tók ég upp á því að nýta tímann milli 5 og 7 á morgnana til útiveru, með því að bera út blöð. Þessi blaðburður leiddi mig að eftirfarandi niðurstöðum:
-Veðurguðirnir eru venjulega í ennþá betra skapi áður en fólk fer á fætur en eftir að það er mætt í vinnuna.
-Hjá Fréttablaðinu er litið á það sem sérstaka greiðvikni að útvega blaðberum burðarpoka eða vagna. Ég var búin að bera út í 16 daga (alla dagana, líka um helgar) og hringja 4 sinnum og ítreka beiðni mína um töskur eða vagn þegar ég loksins fékk óskina uppfyllta.
-Umtalsverður fjöldi bæjarbúa er vakinn milli 5 og 7 á morgnana þegar hundar nágrannanna fagna komu blaðberans með ærnum hávaða.
-Eldra fólk er oft vaknað fyrir kl. 6 á morgnana.
-Eldra fólk sem vaknar fyrir 6 á morgnana hefur sérstaka ást á blaðberum og þreytist ekki á því að dásama dugnað þeirra.
-Því flottari og dýrari einbýlishús sem fólk kaupir, því meiri líkur eru á að það skreyti tröppur og verandir með fokdýrum flísum, svo vel slípuðum að þær verða mannskæðar í bleytu
-Ótrúlega margir telja rýmið undir blaðalúgunni hentugan stað fyrir garðstyttur eða fyrirferðarmikil blómaker.
-Fáir sjá ástæðu til að merkja híbýli sín en skilja samt ekkert í því ef blöðin þeirra eru sett í einhverja aðra lúgu í húsinu (sem er heldur ekki merkt).
-Það dregur nokkuð úr myndun lærapoka að ganga 2 klst. á hverjum morgni.
-Fréttablaðið hefur það að markmiði sínu að fjölga ferðum almennings í endurvinnsluna sem allra mest og dreifir þess vegna ótrúlegum fjölda auglýsingablaða, snifsa og tímarita sem lesendur blaðsins hafa aldrei beðið um og kæra sig sennilega ekkert um að sé troðið inn um lúgurnar þeirra.
-Mun fleiri blaðberar en ég átti von á eru fullorðið fólk, enda þyngdin á öllum aukablöðunum sem dreift er með Fréttablaðinu slík að það er beinlínis ósæmilegt að ráða börn og unglinga sem blaðbera. Þau fáu börn sem ég hitti á morgnana voru oftar en ekki í fylgd foreldra.
-Sumar blaðalúgur límast aftur í rigningu svo þarf smá átak til að opna þær.
-Póstkassar eru sjaldan nógu stórir til að rúma 2-3 dagblöð, ásamt fjölda aukablaða og auglýsingapésa.
-Flestir póstkassar eru verkfæri Satans.
-Sumar blaðalúgur á gömlum húsum eru sérstaklega til þess hannaðar að blaðberinn klemmi sig á þeim.
-Blaðalúgur á nýjum húsum eru oft nógu stórar til að hægt sé að troða Fréttablaðinu, DV og Birtu í þær öllum í einu.
-Ef blaðberinn fær of mörg eintök af blaðinu (sem í mínu tilviki gerðist daglega) þarf hann sjálfur að koma aukablöðunum í endurvinnsluna og greiða 500 kr. í hvert sinn.
-Starfsmenn endurvinnslunnar eru hins vegar svo vinsamlegir að benda á að enda þótt pappírinn sé gjaldskyldur, megi losa sig við hann án þess að borga, með því að setja blöðin í gáma úti í bæ, sem starfsmenn (væantanlega á fullum launum) tæma svo. Þetta er nú aldeilis ökónómiskt fyrirkomulag.
-Ástæðan fyrir því að fólk ræður sig í blaðburð er ekki launin, enda er launakerfið nógu flókið til þess að engin leið er að gera sér í hugarlund fyrirfram hvað mikið einn mánuður gefur af sér.
-Ástæðan fyrir því að Fréttablaðið er alltaf í blaðberahallæri er annars vegar ótrúlega léleg laun fyrir næturvinnu sem auk þess hlýtur að vera erfið yfir veturinn og hins vegar sú að þar á bæ gera menn engan greinarmun á góðri nýtingu starfsfólks og hreinni og klárri misnotkun. Það virðast engin takmörk fyrir því hve mörgum og þungum aukablöðum er troðið upp á blaðberana og þóknunin fyrir þetta aukaálag er smánarleg.