Á sama tíma og gjaldþrot barnungra krakka er sívaxandi vandamál, neysla ólöglegra fíkniefna orðin svo áberandi að samtök hafa verið stofnuð um lögleiðingu þeirra og helmingur þjóðarinnar er á geðlyfjum, Ísland hefur gerst aðili að árásrarstríði, ákveðið hefur verið að drekkja hálendinu og þjóðin fitnar og fitnar og skemmir í sér tennurnar, sjá fjölmiðlar og ákveðnir stjórnmálamenn ástæðu til þess að búa til stór og mikil vandamál úr kynhegðun landans.

Reyndar ekki kynhegðun alls þorrans, heldur aðeins þeirra sem hafa tekjur af kynlífi eða eru reiðubúnir að inna af hendi greiðslu til að fá það sem þeir vilja. Auðvitað þarf mannskepnan alltaf einhvern skít til að velta sér upp úr en ég hélt bara að það væri nóg af honum fyrir. Það er annars gaman að velta því fyrir sér af hverju menn telja kynlífsiðnaðinn svo ósiðlegan. Skoðum nokkur dæmi.

Sú brókarlausa

Sheba súlumær frá Tékklandi dansar nakin gegn þóknun á skemmtistað um helgar. Hún þiggur fyrir það þóknun sem er ferfalt hærri en launin sem hún áður fékk á subbulegu hóruhúsi í heimalandi sínu. Stundum biðja kúnnarnir um meira en einkadans, ef henni líst vel á kúnnann verður hún við þeirri beiðni en enginn þvingar hana.

Linda lausgirta hefur aldrei þegið greiðslu fyrir kynlífsþjónustu. Hún fer brókarlaus á Kaffi Reykjavík um helgar og á skyndikynni við nýjan mann í hverri viku án þóknunar. Stundum í heimahúsi, stundum bara á almenningssalerni. Báðar eru brókarlausar, önnur hefur tekjur af því, hin ekki. Hvor er siðlausari?

Símahóran

Bella símamær hefur atvinnu af því að klæmast við karla sem hringja í til þess hugsaðar símalínur. Hún þiggur myndarlega greiðslu fyrir.

Nanna netfíkill klæmist við menn sem hanga á einkamal.is. Hún gerir það eingöngu ánægjunnar vegna, tekur enga greiðslu. Munurinn er sá að hún getur engan veginn vitað hvort sá sem hún er að klæmast við er jafnaldri hennar eða 14 ára krakki. Hvor er siðlausari?

Melludólgurinn

Nói nudd rekur erótíska nuddstofu með ströngum reglum um hreinlæti og framkomu við dömurnar. Hann tekur skýrt fram að samfarir séu ekki í boði og að mönnum undir áhrifum áfengis verði vísað frá. Hann sér um reksturinn og tekur hluta af þóknuninni, rétt eins og t.d. bílasölur.

Frikki flug rekur flugfélag. Hann auglýsir ókeypis uppáferðir á sauðdrukknar íslenskar stúlkur undir slagorðinu “dirty weekend”. Hann gerir ekkert sem hægt er að túlka sem milligöngu um vændi. Hann útvegar ekki stað eða stúlku, hann bara kemur kúnnanum til landsins og eftir það verður hann að bjarga sér. Hann gerir heldur engar kröfur um hreinlæti og framkomu og ef einhver af þeim stúlkum sem hann hefur auglýst verður fyrir árás er hann ekki ábyrgur. Báðir hafa tekjur af kynferðislegum samskiptum annars fólks. Annar ber ábyrgð á þeim samskiptum, hinn ekki. Annar hefur tekjur af þeim samskiptum, hinn ekki. Hvor er siðlausari?

Gleðikonan

Villa vændiskona tekur á móti 2 viðskiptavinum á dag. Hún gerir skýlausa kröfu um notkun smokka, fer reglulega í læknisskoðun og blóðprufu. Tekjur hennar er mun hærri en hún ætti kost á ef hún ynni 60 stunda vinnuviku á kassanum í Bónus.

Mannelska Mæja hefur mök við 3-6 menn á mánuði. Hún notar ekki smokka og það er ekki fyrr en hún fer í fóstureyðingu í annað sinn sem hún kemst að því að hún er með klamidíu. Því miður getur hún ekki látið alla kunningja sína vita því hún veit ekki hverjir sumir þeirra eru en hún hefur heldur aldrei tekið krónu fyrir greiðann. Hvor er siðlausari?

Vændiskúnninn

Alli einhleypi heimsækir Villu vændiskonu mánaðarlega. Hann er alkóhólisti, kvöldsvæfur, feiminn og með ristruflun. Honum finnst þægilegra að leita til hennar en að fara á skemmtistaði og fara þaðan út með drukkinni konu sem gerir til hans kröfur um að standa sig í bælinu. Hann borgar fyrir sig og gengur út sannfærður um að hann sé þrátt fyrir allt nothæfur karlmaður þegar hann á annað borð er í réttum aðstæðum.

Kalli kvennagull er kvæntur maður. Hann hefur aldrei greitt fyrir kynlífsþjónustu enda aldrei verið í vafa um kvenhylli sína. Hann á margar vinkonur sem hann á ýmist regluleg eða tilviljanakennd kynni við framhjá konu sinni. Hvor þeirra fer verr með konur? Hvor er siðlausari?

Nei ég á ekki við að þetta sé allt frábært

Mistúlkið ekki orð mín. Ég er ekki að segja að kynlífsiðaðurinn eigi sér engar skuggahliðar. Ég er ekki að mæla með kynlífsþrælkun og öðrum mannréttindabrotum eða halda því fram að allir hórmagnarar standi faglega að starfsemi sinni, allar hórur séu hreinlátar eða að allir sem sækja þjónustu þeirra kunni mannasiði. Ég er heldur ekki að réttlæta ósiðlega hegðun með þessum samanburði.

Ég er að reyna að benda á tvískinnunginn og hræsnina sem einkennir umræðu um klám- og kynlífsiðnaðinn. Ég er að velta því fyrir mér hvort sé kannski ástæða til þess að við tökum til heima hjá okkur áður en við sópum göturnar.