Fáum virðist finnast það tiltökumál sem ég gerði að umræðuefni í pistli í gær, hvernig fólk í valdastöðum á Íslandi heldur leyndum upplýsingum sem almenningur ætti að fá aðgang að um leið og valdafólkið. Mér finnst þetta satt að segja ein versta blindan þegar kemur að þeim kröfum sem fólk leyfir sér að hafa í frammi gagnvart yfirvöldum. Samtímis held ég að þótt vika til eða frá í umræddu máli skipti ekki sköpum, þá sé valdbeitingin hér einmitt valdníðsla af því tagi sem gegnsýrir hugsunarhátt valdafólks á Íslandi, og sem almenningur sættir sig við í allt of ríkum mæli. Því ákvað ég að birta hér, sem sérstakan pistil, svar mitt til heiðursmannsins Jóns Daníelssonar, við athugasemd hans um ofangreindan pistil minn. Athugasemd Jóns má sjá í tjásukerfinu við þann pistil.
———————————————————————
Jón: Ég held ekki fram að nákvæmlega hvenær skýrslan verður birt almenningi sé stórmál. Hins vegar finnst mér þetta lýsandi dæmi um það hryllilega viðhorf sem gegnsýrir íslenska stjórnsýslu: Fólkið sem hefur völdin innan hennar lítur alltaf á eigin hagsmuni sem æðri hagsmunum almennings. Þetta ætti auðvitað að vera þveröfugt. Engum dettur í hug að halda öðru fram opinberlega en að hið æðsta vald komi frá almenningi. Þannig ætti það einnig að vera í praxís, og því ætti enginn nokkurn tíma að fá skýrslu af þessu tagi í hendur á undan almenningi, þegar henni er lokið, og hún er ekki lengur í vinnslu.
Það gerir ekkert til þótt kjörnir fulltrúar þurfi að segja við fréttamenn að þeir hafi ekki kynnt sér efni skýrslunnar mínútu eftir að þeir fengu hana í hendurnar. Það er heldur ekki eðlilegt að valdafólkið fái langan tíma til að undirbúa sig sem hugsanlegir gagnrýnendur þess fá ekki. Valdafólkið á EKKI að verja eigin hagsmuni í þessu máli, eða nokkru öðru sem stjórnsýslan fæst við.
Þetta viðhorf sem ég er að berjast fyrir hér hefur reyndar verið stjórnarskrárbundið í Svíþjóð í áratugi, og engan stjórnmálamann þar í landi hef ég nokkurn tíma heyrt halda því fram að það væri óeðlilegt, hvað þá skaðlegt. Í Svíþjóð hefði hver sem er, jafnvel þú, nafnlaust, getað fengið afrit af þessari skýrslu um leið og hún hafði verið afhent borgarstjóra.
Þótt Svíþjóð sé ekki að öllu leyti draumaland, þá ĺiggur einföld hugmynd að baki hinum ítarlegu og öflugu upplýsingaákvæðum sænsku stjórnarskrárinnar: Að stjórnvöld eigi að vinna fyrir hagsmuni almennings, og að engir aðrir hagsmunir megi hafa áhrif á það starf.
Ég veit að það er nánast enginn skilningur á þessu sjálfsagða viðhorfi á Íslandi. Og mér finnst sláandi að maður eins og þú skulir taka undir þá afstöðu sem ég tel í þessu máli vera örgustu valdníðslu. Sláandi, einmitt af því að fáa menn þekki ég sem eru eins víðsýnir og réttsýnir og þú ert (þótt ég sé stundum ósammála þér).