Dagur B. Eggertsson og OR-skýrslan

Í gær fékk ég fréttir af því, eftir krókaleiðum, að ef til vill væri ekki allt eins og það ætti að vera varðandi úttektina á Orkuveitu Reykjavíkur, en skýrslan um úttektina var afhent borgarstjóra í síðustu viku.  Það á svo að kynna hana á miðvikudag fyrir „eigendum“, þ.e.a.s. þeim sem fara með eigendavaldið í þessu fyrirtæki fyrir hönd almennings.  Almenningur, hinn raunverulegi eigandi, má hins vegar éta það sem úti frýs enn um sinn.  Um þá afstöðu til upplýsingamála fjallaði ég í síðustu tveim pistlum.

Ég hringdi því í upplýsingafulltrúa OR, Eirík Hjálmarsson, og svo í formann borgarráðs, Dag B. Eggertsson.
Eiríkur sagði mér að hann og fleiri starfsmenn OR hefðu séð skýrsluna, a.m.k. hluta hennar, fyrir nokkrum mánuðum, til að „fact-tékka“ hana.  Þessir starfsmenn hefðu gert athugasemdir við eitt og annað sem ekki væri rétt, og ég skildi það sem svo að það hefði verið „leiðrétt“ í kjölfarið, þótt ekki viti ég hvað þar um ræðir.
Mér hefur reyndar ekki tekist að útvega mér nægar upplýsingar um hvernig úttektarnefndin átti að starfa, en það hljómar sérkennilega, sem mér skilst að sé raunin, að starfsmaður umræddrar nefndar, sem sjái um ritun skýrslunnar, hafi aðsetur í húsnæði OR.  Að starfsmenn fyrirtækisins séu líka að skoða skýrsluna og gera athugasemdir við hana virðist ekki vænlegt til þess að hún verði eins traust og óskandi væri.  Þetta eru samt ekki nýjar fréttir, eins og fram kemur hér, en þar er líka sagt frá því að Eiríkur var aðstoðarmaður tveggja borgarstjóra, auk þess sem hann átti að fá kauprétt í REI sáluga.  Fleira um vafasama blöndu pólitíkur við gerð þessarar skýrslu er að finna hér,
Hitt var athyglisverðara, sem Dagur sagði mér.  Eða öllu heldur, það sem hann vildi ekki segja.  Hann byrjaði reyndar á því að segja mér að honum liði „undarlega“ yfir að vera í einhvers konar „fjölmiðlaviðtali“ við mig.  Þegar ég spurði hvað væri svona undarlegt við að óbreyttur borgari vildi grennslast fyrir um  svo mikilvæg mál varð fátt um svör, nema hvað hann endurtók að þetta væri „kjánalegt“, að ég væri að spyrja hann út í þessi mál, mikilvægara væri hvað yrði gert við þessa skýrslu.  Auk þess fannst Degi skrítið hvernig ég „hefði farið í þetta mál“.  Þegar ég spurði hvað hann ætti við með því sagði hann að ég hefði strax byrjað með einhverja tortryggni, og átti þar við að ég hafði kallað það valdníðslu, í bloggpistli,  að almenningur skyldi ekki fá skýrsluna í hendur um leið og hún var tilbúin.  Mér hafði reyndar ekki dottið í hug að tortryggja neitt í þessu sambandi, en er nú farinn að velta fyrir mér hvort ástæða sé til þess, eftir þessi ummæli Dags.
Ég spurði Dag svo þeirrar spurningar sem mér finnst mikilvægust í þessu,  hvort hann hefði séð skýrsluna eða drög að henni á meðan hún var í vinnslu, í hluta eða heild.  Hann vildi ekki svara því. Ég spurði aftur, en hann fór undan í flæmingi, og sagðist myndu svara mér í tölvupósti seinna um kvöldið (í gær) .  Það svar hef ég ekki fengið enn.
Auðvitað get ég ekki verið viss, en mér finnst liggja í augum uppi að Dagur hefði svarað spurningu minni neitandi ef hann hefði ekkert séð af skýrslunni.  Ég vona að eitthvert öflugt fjölmiðlafólk togi allan sannleikann um það upp úr Degi.  Og spyrji svo hinnar augljósu framhaldsspurningar um hvort hann hafi haft einhver áhrif á ritun skýrslunnar.  Vonandi finnst honum erfiðara að neita að svara alvöru fjölmiðlafólki en að vera í „kjánalegu fjölmiðlaviðtali“ hjá óbreyttum borgara.  Þótt það hafi greinilega verið nógu sárt fyrir hann,  sem segir sorglega sögu um afstöðu valdamanns til þess almennings sem hann á að vinna fyrir.

Deildu færslunni