Georg Bjarnfreðarson og OR-skýrslan

borgarstjori,
Kristín

Sæl Kristín

Takk fyrir póstinn.  Ég er svolítið svekktur yfir því að Georg skuli hafa tekist að læsa Jón inni á klósetti og láta svo starfsmann á plani senda mér „svar“ með engum viðbrögðum við því sem ég var að reyna að benda á, heldur bara úrklippu úr afsökunarsafninu sem hann lærði utanað í fimmta meistaranáminu.  Öllum sem hafa fylgst með afstöðu Georgs Bjarnfreðarsonar til lífs og starfs ætti að vera ljóst að það er ekki viðunandi framkoma sem hér er lýst varðandi afhendingu skýrslunnar.Það er alveg sérstaklega nöturlegt að Georg skuli hafa pínt þig til að tala um að niðurstöðurnar verði kynntar „eigendum“ fyrst, en almenningi miklu síðar. Eigendur Orkuveitunnar eru almenningur.  Þessi þarna sami almenningur og hefur þurft, og mun þurfa í mörg ár enn, að borga dýru verði klúðrið og spillinguna sem er rót þess að verið er að skrifa umrædda skýrslu.

Það er óviðunandi að Georg sé að leika eiganda bensínstöðvarinnar og neita hinum raunverulegu eigendum um afgreiðslu, með landsþekktum fruntaskap sínum,  Ekki bætir úr skák að hann skuli reyna að ljúga upp einhverri þvælu um „eigendanefnd“ (er það ekki bara stjórn starfsmannasjóðsins, sem á í raun ekkert í stöðinni?).

Ég vona að þú getir, fyrir lok dagvaktar í dag, laumast til að sleppa Jóni út af klósettinu og læst Georg þar inni í staðinn.  Ég er viss um að þá muni Jón birta skýrsluna okkur sem eigum stöðina, þótt það gleymist yfirleitt nema þegar á að borga fyrir tapið sem einlægt hefur orðið á vöktum Georgs, vegna klikkaðrar framkomu hans gagnvart viðskiptavinum og starfsmönnum.

Ég bið þig svo að votta Jóni samúð mína þegar hann sleppur úr prísundinni, og ég mun ekki áfellast hann fyrir að löðrunga Georg duglega, þótt það sé kannski ekki alveg í samræmi við reglurnar.

Bestu kveðjur,
Einar

2012/10/5 Kristín Vilhjálmsdóttir <kristin.vilhjalmsdottir@reykjavik.is>

Tilvísun í mál: R11040015

 

Sæll Einar.

 

Bestu þakkir fyrir erindi þitt til borgarstjóra þar sem farið er fram á að skýrsla um úttekt á rekstri Orkuveitu Reykjavíkur (OR) verði birt almenningi strax.

Niðurstöður úttektarinnar verða kynntar eigendum á auka eigendafundi Orkuveitu Reykjavíkur kl. 15.00 miðvikudaginn 10. október nk. og í beinu framhaldi af þeim fundi verður boðað til kynningarfundar með borgar- og bæjarfulltrúum og stjórn OR þar sem úttektarnefndin mun gera grein fyrir niðurstöðum sínum og skýrslan afhent. Strax að loknum þeim fundi verður boðað til blaðamannafundar þar sem fjölmiðlum gefst kostur á að spyrja nefndarmenn og fulltrúa af eigendafundi út í niðurstöðurnar og skýrslan mun liggja frammi.

Borgarstjóri sendir þér sínar bestu kveðjur með þökk fyrir fyrirspurnina.

 

Með góðri kveðju,

Kristín Vilhjálmsdóttir
verkefnastjóri

Skrifstofa borgarstjóra – Mayor’s Office
Ráðhús Reykjavíkur – City Hall
Tjarnargata 11
101 Reykjavík
Sími/Tel. +354 411 4507
Fax. +354 411 4599
Netfang/E-mail: kristin.vilhjalmsdottir@reykjavik.is
Heimasíða/Homepage: http://www.reykjavik.is
__________________________________
Reglur um trúnað í tölvupóstsamskiptum: http://www.reykjavik.is/trunadurLeiddu hugann að umhverfinu áður en þú prentar út þennan tölvupóst. Ef nauðsynlega þarf að prenta, prentaðu þá báðar hliðar og í svarthvítu.

 

 

From: einar.steingrimsson@gmail.com [mailto:einar.steingrimsson@gmail.com] Fyrir hönd Einar Steingrimsson
Sent: 3. október 2012 22:43
To: Borgarstjórinn í Reykjavík
Subject: Skýrslan um úttekt á OR

 

Til borgarstjóra

Hér með skora ég á þig að birta samstundis skýrsluna sem sagt er frá í þessari frétt:  http://visir.is/titringur-hja-reykjavikurborg-vegna-skyrslu-um-or/article/2012121009576

 

Orkuveitan er í eigu almennings.  Stjórnir sveitarfélaganna sem hún tilheyrir eiga auðvitað að þjóna hagsmunum almennings, og engum öðrum hagsmunum.  Þeir sem fara með völdin í þessum sveitarfélögum, eins og þú, hafa alls engan siðferðilegan rétt til að fara með þessa skýrslu eins og hún sé þeirra gagn, en ekki almennings.

Ég veit að það hefur verið erfitt að koma inn þeirri hugmynd hjá valdafólki á Íslandi að það eigi ekki að sitja í valdastöðum til að þjóna sjálfu sér og flokkssystkinum sínum, heldur almenningi.  Ég vona að þú brjótir þá vondu hefð, og birtir þessa skýrslu strax.

Bestu kveðjur,

Einar

 

Deildu færslunni