Á Jón Gnarr Orkuveitu Reykjavíkur?

Það var verið að klára skýrslu um úttekt á starfsemi Orkuveitu Reykjavíkur.  Orkuveitan fór úr því að vera eitt stöndugasta fyrirtæki landsins, með algerlega pottþéttar og fyrirsjáanlegar tekjur, í að verða nánast gjaldþrota.  Orkuveitan er enn stórskuldug, sem meðal annars hefur leitt til gríðarlegra hækkana á orkuverði til almennings.  Í þessari frétt segir um skýrsluna:

„Skýrsla úttektarnefndarinnar verður fyrst kynnt eigendum Orkuveitunnar, þ.e. Reykjavíkurborg, sem á 95 prósent hlut, og síðan Akraneskaupstað og Borgarbyggð. Eftir það verður skýrslan kynnt almenningi.“
Orkuveitan er fyrirtæki í eigu almennings, sem ekki bara stendur straum af öllum kostnaði við rekstur hennar, heldur hefur hann líka þurft að axla skuldirnar gríðarlegu sem virðast stafa af því að forráðamenn fyrirtækisins gerðu tóma vitleysu á nokkurra ára tímabili.  Reykjavíkurborg, Akraneskaupstaður og Borgarbyggð eru stofnanir sem eiga að starfa eingöngu í þágu þess almennings sem býr á þessum stöðum.  Hvernig í ósköpunum stendur á því að umrædd skýrsla er ekki strax kynnt hinum raunverulegu eigendum, þ.e.a.s. almenningi?
Ég er hræddur um að svarið sé hið sama og yfirleitt þegar opinberar upplýsingar eru annars vegar á Íslandi: Fólk í valdastöðum telur að völdin séu þess til að ráðskast með, og að afskipti almennings séu fyrst og fremst truflun í starfi þess.
Loforðin um „opna stjórnsýslu“ og „gegnsæi“ áttu kannski aldrei að verða meira en loforð?  Og, var það kannski alltaf meiningin að almenningur héldi bara áfram að éta það sem úti frýs?

Deildu færslunni