Jafnréttismál í Háskóla Íslands

Jafnréttisnefnd Háskóla Íslands sendi mér eftirfarandi erindi þann 24. mars, vegna málfundar sem félag prófessora stendur fyrir í dag, til kynningar á frambjóðendum til rektorskjörs í Háskóla Íslands.

Þar sem efni fundarins var þá löngu ákveðið og ég búinn að undirbúa mig í samræmi við það, gat ekki komið því við að fjalla um þessi mál á þeim stutta tíma sem frambjóðendum er ætlaður, en ákvað svara þess í stað hér.

 

Erindi jafnréttisnefndar:

Við umfjöllun þína um þau málefni sem lagt er upp með á fundi rektorsframbjóðenda á fimmtudag óska fulltrúar í jafnréttisnefnd skólans eftir því að þú fjallir um jafnréttismál innan Háskólans í samhengi við málefnin. Háskóli Íslands gaf út mjög metnaðarfulla stefnu um jafnréttismál sem gildir fyrir árin 2013 – 2017. Okkur finnst mikilvægt að heyra hvaða málefni úr jafnréttisáætlun þú teljir mikilvægt að verði sett í forgang og hvernig þau skuli fjármagna. Örfá dæmi um málefni eru:

  • Aðgengi – í víðu samhengi, m.a. algild hönnun sem reglan við nýbyggingar, skoða fjölbreyttari útfærslu kennsluhátta og námsmats (viðeigandi aðlögun) án þess að slegið sé af kröfum, stuðningur við erlenda nemendur
  • Fræðsla um jafnréttismál skylda fyrir stjórnendur og annað starfsfólk við nýráðningar
  • Fjölskylduvænar aðstæður í námi og starfi
  • Jafnréttisnám sem skylda í einstökum námsbrautum, t.d. í kennaranámi
  • Konur meðal prófessora – aðgerðir
  • Konur meðal stjórnenda
  • Lágt hlutfall annars kynsins í tilteknum námsbrautum, og hlutfall karla meðal nemenda í heild (þ.e. ástæður þess að konum hefur fjölgað hraðar en körlum undanfarna áratugi)

 

Svör mín

Varðandi spurninguna um það hvaða málefni úr jafnréttisáætluninni ég telji að eigi að setja í forgang þá tel ég 3ja markmið áætlunarinnar „að taka fullt tillit til jafnréttissjónarmiða við skipulag náms, kennslu og rannsókna“ vera mikilvægast og undrast ég stórum að það skuli ekki þegar vera álitið svo sjálfsagt að óþarft sé að ræða það. Til allrar hamingju er almennt ekki kostnaðarsamt að framfylgja svo sjálfsögðum hlutum í daglegu starfi.

 

Aðgengi:

Ég geri mér ekki grein fyrir kostnaði skólans vegna sérþarfa fatlaðra en reikna með fjárframlögum frá ríkinu vegna þess.

Hvað varðar aðgengi í þeirri merkingu að komast ferða sinna um lóð og húsnæði skólans, þá gilda einfaldlega lög í landinu sem kveða á um að stefna skuli að aðgengi fyrir alla, auk þess sem bæði Stjórnarskráin og Mannréttindasáttmáli Evrópu banna mismunun á grundvelli fötlunar. Það heyrir undir Mannvirkjastofnun að sjá til þess að hönnun bygginga sé fullnægjandi að þessu leyti.

Hvað snertir fjölbreyttari útfærslu kennsluhátta og námsmats þá veit ég ekki með hvaða hætti núverandi forysta skólans hefur tryggt rétt fatlaðra en ég hef almennt áhuga á að vinna að úrbótum í kennslu- og námsmatsmálum og þar eru nemendur með sérþarfir ekkert undanskildir. Árið 1999 féll dómur í Hæstarétti þar sem blindri konu voru dæmdar miskabætur vegna vanrækslu HÍ á því að koma til móts við þarfir hennar, það er í mínum huga blettur á sögu skólans að nemandi hafi þurft að fara með slíkt mál fyrir dómstóla.

 

Jafnréttisfræðsla fyrir stjórnendur:

Ég tel ekki þörf á sérstakri fræðslu um jafnréttismál fyrir stjórnendur. Það er sjálfsagt að jafnréttisnefnd beini því til stjórnenda að hafa í huga að flest höfum við ómeðvitaða fordóma gagnvart fólki sem við skilgreinum sem minnihlutahópa. Til dæmis má benda á rannsókn sem sýnir tilhneigingu akademískra starfsmanna til að gefa verkum meira vægi ef karlmaður er skrifaður fyrir þeim.  Þeir fordómar stafa ekki af fáfræði heldur eimir eftir af aldagömlum hugsunarhætti. Ég tel því að umfangsmikil fræðsla myndi ekki skila meiri árangri en vinsamleg ábending. Þegar eru fyrir hendi kæruleiðir sem fara má ef fólki er mismunað á ómálefnalegum forsendum.

Ég hef ekki í hyggju að grípa til sérstakra aðgerða vegna kynjahlutfalls meðal starfsfólks HÍ nema komi í ljós að kerfisbundin mismunun eigi sér stað. Slíkt mun ég aldrei líða en þær tölur sem liggja fyrir gefa ekki tilefni til að ætla að svo sé.

 

Þessar tölur eru teknar héðan

 

Fjölskylduvænar aðstæður:

Ef Háskóli Íslands er ekki gerólíkur öllum þeim háskólum sem ég þekki af eigin raun, er ekki ástæða til að hafa þungar áhyggjur af þessum þætti. Háskólafólk býr almennt við fjölskylduvænar aðstæður þar sem lítið er um viðveruskyldu á kvöldin eða á helgidögum.

Þeir sem stunda rannsóknir hafa miklu meira sjálfræði um það hvernig þeir skipuleggja vinnutíma sinn en þorri launþega og hluta þess starfs er oft hægt að stunda að heiman. Ég er hinsvegar ekki innanbúðarmaður í HÍ svo ef jafnréttisnefnd hefur aðra mynd af ástandinu þá þigg ég ábendingar.

Þess má geta að ég hef í mörg ár talað fyrir sveigjanlegum vinnutíma.

 

Jafnréttisnám sem skylda á einstökum námsbrautum:

Að sjálfsögðu á að fræða kennaranema um stöðu minnihlutahópa. Margir hópar barna eru í viðkvæmri stöðu, t.d. er mikið brottfall úr skóla meðal fyrstu kynslóðar Íslendinga (þ.e.a.s. barna innflytjenda), fötluð börn ganga nú í almenna skóla og hinsegin fólk verður æ sýnilegra. Áríðandi er að jafnréttisfræðsla, eins og öll önnur kennsla sem fram fer í háskólum, sé byggð á vönduðum rannsóknum, sem standast vísindalegar kröfur.

Á flestum námsbrautum ætti þó námið að snúast um þjálfun í vísindalegum aðferðum en ekki jafnréttismál, ekkert frekar en um t.d. umhverfismál, lýðræði eða önnur mál sem hafa gildi fyrir samfélagið almennt, fremur en þau fræði sem um ræðir.

 

Konur meðal prófessora og konur meðal stjórnenda

Mikilvægt er að Háskólinn láti ekkert annað en verðleika ráða því hverjir veljast til starfa og fá framgang í stöður. Konum í prófessorsstöðum og öðrum akademískum stöðum hefur fjölgað hratt á síðustu áratugum. Í dag eru konur í yfirgnæfandi meirihluta háskólanema. Það eru því allar líkur á að nóg framboð verði af frambærilegum konum í prófessorsstöður á næstu árum. Það sama á við um stjórnendur, ef svo fer fram sem horfir verða konur í meirihluta stjórnenda eftir nokkur ár.

Ég tel rétt og nauðsynlegt að breyta þeirri stefnu sem HÍ hefur viðhaft gagnvart útlendingum með því að auglýsa stöður seint, illa, á séríslenskum vettvangi og stundum eingöngu á íslensku. Það er ekki gott að segja hversu mörgum afburða vísindakonum og -körlum við höfum misst af vegna þeirrar stefnu að halda utanaðkomandi fólki frá skólanum.

 

Ástæður þess að kynjahlutföll í námi hafa breyst

Fyrir því eru margþættar samfélagslegar og pólitískar ástæður sem félagsvísindafólk leitast nú við að varpa ljósi á.Þetta er að mínu mati áhugavert en ég tel það hvorki á valdi né í verkahring háskóla að skipta sér af námsvali kynjanna eða reyna að handstýra piltum í háskólanám.

Við ættum líka að spyrja hvort skynsamlegt sé að leggja mikla áherslu á flokkun fólks í konur og karla þegar ljóst er orðið að margt fólk lítur ekki á sig sem annað hvort karl eða konu.

Skv nýjum upplýsingum frá Rannís

—-

Einar Steingrímsson er í framboði til rektorskjörs í HÍ sem fram fer 13. apríl.
Upplýsingar um helstu stefnumál hans er að finna hér

 

Einnig birt hér

Deildu færslunni