Fjármögnun Háskóla Íslands

Í fréttum RÚV í gærkvöldi  (byrjar á 5:53) töluðu bæði forseti læknadeildar Háskóla Íslands, Magnús Karl Magnússon, og háskólaráðsmaðurinn Jakob Ó. Sigurðsson um bága fjárhagsstöðu skólans, og Magnús talaði um að það þyrfti að endurfjármagna háskólakerfið í heild sinni og að þetta þyrftu frambjóðendur til rektors HÍ að láta til sín taka.

Til að sannfæra stjórnvöld um að skynsamlegt sé að veita meira fé í HÍ þarf skólinn að leggja fram sannfærandi stefnu sem felur í sér þess konar breytingar á starfi hans sem líklegar eru til að nýta fjármuni hans betur. Ekki bara til að bregðast sem best við núverandi fjárskorti, heldur líka til að tryggt sé að aukið fé verði vel notað.

Eitt af því sem oft er kvartað yfir, og örugglega réttilega, er að í HÍ séu of margir nemendur miðað við kennara. Ein leið til að laga þetta er að fjölga kennurum. Hin leiðin er að fækka nemendum, og við verðum að vera tilbúin að ræða þann möguleika, og hvort það sé e.t.v. skynsamlegt út frá gæðum skólans, jafnvel þótt hann fengi miklu meira fé. Þótt vissulega sé hægt að þjóna þörfum nemenda með talsvert ólíkan bakgrunn og getu eru takmörk fyrir því hversu mikil sú breidd má vera áður en hún kemur niður á kennslunni.

Það hefur verið rætt um að endurskipuleggja háskólakerfið í heild sinni frá því fyrir hrun. Eftir hrun var talað um það sem nauðsyn, í ljósi yfirvofandi niðurskurðar, en út úr því kom nákvæmlega ekki neitt. Eitt af því sem Háskóli Íslands ætti að vera tilbúinn að ræða í þeim efnum er hvort Ísland ætti að hafa svipað tvískipt kerfi og er í flestum sambærilegum löndum, þar sem lítill hluti nemenda stundar nám í háskólum með mikla áherslu á rannsóknir, en meirihlutinn í skólum þar sem áherslan er á kennslu. Það er a.m.k. erfitt að skilja af hverju Ísland á að geta staðið undir háskólakerfi þar sem allt akademískt starfsfólk hefur rannsóknaskyldu.

Ein leið til að nýta fé HÍ betur er að aflétta rannsóknaskyldunni á því starfsfólki sem ekki stundar rannsóknir af þeim gæðum sem stefna skólans miðast við að efla, þ.e.a.s. rannsóknum sem standast alþjóðlegan samanburð. Þannig myndi sparast mikill tími, sem hægt væri að nota í annað, meðal annars að sinna kennslu og þróun hennar betur.

Hér má lesa um heildarstefnu mín fyrir HÍ.

Einnig birt hér