Rannsóknir og forréttindafemínismi

Ef fimm konur og fimmtán karlar í hundrað manna úrtaki reyndust hafa tiltekinn sjúkdóm dytti manni ef til vill í hug að sjúkdómurinn legðist fremur á karla en konur.  Fengi maður að vita að í úrtakinu væru 25 konur og 75 karlar lægi hins vegar beinna við að álykta að sjúkdómurinn væri jafn algengur meðal beggja kynja.  Væri um að ræða 10 konur og 90 karla væri nærtækara að álykta að konur væru þrefalt líklegri til að fá sjúkdóminn.  Sigríður Halldórsdóttir, prófessor á heilbrigðisvísindasviði við Háskólann á Akureyri, virðist hafa frumlegri afstöðu til tölfræði.

Sigríður var í viðtali í Víðsjá á Rás 1 í gær, og hún ætlar að halda fyrirlestur í hádeginu í dag, um meint kynjamisrétti í úthlutun úr tveimur stærstu rannsóknasjóðum landsins, Rannsóknasjóði og Tækniþróunarsjóði.  Samkvæmt kynningu á fyrirlestrinum, á vef Rannsóknastofu í kvenna- og kynjafræðum, telur Sigríður ámælisvert að konur fái miklu minna úthlutað úr þessum sjóðum, sérstaklega úr Tækniþróunarsjóði.

Sjálfsagt hefur Sigríður kynnt sér gögnin sem hún vísar í.  Í þeim kemur fram að í úthlutunum úr Rannsóknasjóði síðustu fjögur árin er svipað árangurshlutfall hjá körlum og konum, þ.e.a.s. 24,8% karla sem sóttu um styrk fengu hann og 23,4% kvenna.  Um er að ræða samtals 1544 karla og 770 konur sem sóttu.  Ef við gefum okkur að fagráðin og ytri umsagnaraðilar sem fjalla um umsóknir hafi unnið faglega eins og þeim ber, þá lægi beint við að álykta að konur og karlar sem sóttu um séu að meðaltali með álíka góðan vísindaferil að baki og álíka góðar rannsóknaáætlanir í umsóknum sínum.  Auðvitað er þetta ekki gefið mál, en fátt virðist benda til að hér sé verið að hygla öðru kyninu, enda virðist Sigríður ekki hafa nein gögn sem styðja það.

Í Tækniþróunarsjóði lítur þetta aðeins öðru vísi út.  Þar sóttu á tímabilinu 80 konur og 384 karlar, og fengu 27% karla sem sóttu styrki, en 35% kvenna.  Það er sem sagt 30% líklegra að kona sem sækir fái styrk en karl.  Ef við gæfum okkur að konur og karlar sem sækja hér séu að meðaltali með  jafn góðan feril og jafn góðar rannsóknaáætlanir væri niðurstaðan að verið væri að mismuna, konum í hag.  Ég hef þó engan heyrt halda því fram; eðlilegra virðist vera að álykta að konurnar sem sækja séu að meðaltali betri en karlarnir.

Sigríður vill breyta þessu.  Hún virðist vilja að  gæði vísindafólksins og gæði rannsóknaáætlana þess verði sett í baksætið, og úthlutunum  stýrt þannig að jafn margar konur og karlar fái styrki.  Það myndi óhjákvæmilega leiða  til að lakara vísindafólk með lakari rannsóknaverkefni fengi styrki á kostnað hinna sem betri eru.  Ein afleiðing af því gæti orðið að undirmálskarlar færu að fá styrki til rannsókna í hjúkrunarfræði, sviði Sigríðar, af því að í því fagi er svo miklu meira af konum en körlum.  Að sama skapi myndu þá konur sem væru betri vísindamenn en styrktu karlarnir verða útundan.

Jafnrétti gengur út á að fólk sé metið að verðleikum, ekki eftir kynferði. Sigríður vill ekki jafnrétti. Hún vill ekki að fólk sé metið að verðleikum, heldur eftir kynferði. Hún vill andverðleikasamfélag, þar sem tryggt er að þeim sem lakari eru sé hyglt á kostnað þeirra sem betur standa sig.

Deildu færslunni