Hræðsluáróður um kynlíf unglinga

Í gær var þáttur í Íslandi í dag sem bar yfirskriftina „Kláminu að kenna?“

Þar sagði ung stúlka ófagra sögu af sambandi sem hún hafði verið lengi í. Einnig kom fram kennari í kynjafræði sem hélt fram ýmsum staðhæfingum um klám og samlíf unglinga. Kennarinn sagði meðal annars að þetta (sem stúlkan lýsti) væri algengara en við höldum, og að strákar væru gjarnan með ranghugmyndir um kynlíf sem stelpurnar gæfu eftir fyrir. Enn fremur að stelpur séu oft með laskaða sjálfsmynd, og fréttamaðurinn segir að þeim fari fjölgandi stelpunum sem lendi í þessari stöðu sem stúlkan lýsti. Engin gögn voru nefnd sem styddu nokkrar af þessum staðhæfingum („algengara en við höldum*, „fer fjölgandi“ eða hversu algengar „ranghugmyndir“ um kynlíf væru).

Í þættinum var sterklega gefið í skyn að klámhorf drengja leiddi af sér ofbeldisfulla hegðun gagnvart stúlkum. Ekki var bent á neitt sem styður þessa staðhæfingu, enda veit ég ekki til að nokkurn tíma hafi tekist að sýna fram á slík tengsl, ekkert frekar en tekist hefur að sýna fram á að það hafi skaðleg áhrif á unglinga að horfa á aragrúa mynda sem snúast fyrst og fremst um ofbeldi og manndráp, oft á upphafinn hátt. Kennarinn talaði líka um að munnmök og endaþarmsmök væru „ekki eðlileg á þeim aldri“ (meðal unglinga), án þess að útskýra af hverju, né heldur var útskýrt hvað væri eðlilegt kynlíf fyrir þennan aldurshóp. Gera má ráð fyrir að kennarinn telji þetta „óeðlilega kynlíf“ algengt því annars hefði hún varla talið þetta svo mikilvægt mál, en hér var ekki heldur bent á neitt sem styddi það.

Ekkert virðist liggja til grundvallar staðhæfingum kennarans annað en meint reynsla hennar (þótt við fengjum ekkert að vita um umfang þeirrar reynslu), og svo þessar venjulegu flökkusögur um munnmök og endaþarmsmök sem ungar stúlkur séu þvingaðar í. Fyrir utan auðvitað að þetta heimsósómastef um hegðun unglinga er a.m.k. þrjú þúsund ára gamalt, og hefur lítið breyst nema hvað varðar útfærslu sagnanna.

Þessi sami kennari var í löngu viðtali í þættinum Sirrý á sunnudagsmorgni þann 22. janúar, þar sem hún talaði meðal annars um tengsl á mili píkuraksturs og barnagirndar, án þess að nefna nokkur gögn eða rök máli sínu til stuðnings. (Því miður er vefur RÚV bilaður sem stendur, svo ég get ekki haft þetta orðrétt eftir, en hér er tengill á þáttinn, sem vonandi verður lagaður.)

Auk þess hversu vafasamt það hlýtur að teljast að úthrópa drenginn sem stúlkan ræddi um sem nauðgara í sjónvarpsþætti, var hér í stuttu máli um að ræða hræðsluáróður kennara sem ekki virðist geta stutt mál sitt nokkru sem hönd á festir. Það er sjálfsagt að taka hart á hvers konar kynferðisofbeldi (eins og öðru ofbeldi). Það er líka sjálfsagt að gera það sem hægt er til að styrkja unglinga í því viðhorfi að þeir eigi ekki að láta þvinga sig til að gera neitt sem þeim líkar ekki. Það er hins vegar ekki „fræðsla“ af ofangreindu tagi sem unglingar þurfa á að halda frá kennurum sínum. Kennarar ættu að halda slíkum krossferðum fyrir sjálfa sig.

Deildu færslunni