Er RÚV verjandi Geirs?

Íslenskir fjölmiðlar eru, með fáum undantekningum, drasl. Undantekningarnar eru vissulega til staðar, eins og Sigrún Davíðsdóttir og Helgi Seljan (og þær eru fleiri, þótt ég tíundi þær ekki hér). Þess vegna átti ég ekki von á frábærri umfjöllun um Landsdómsmálið. Samt varð ég fyrir gífurlegum vonbrigðum, aðallega með RÚV, sem ég hafði leyft mér að vona að liti svo á að hér væri um slíkan stórviðburð að ræða að öllu yrði tjaldað til. Reyndin er önnur; umfjöllunin hingað til hefur verið eins og í menntaskólablaði árgangs með enga hæfileikakrakka.

Satt að segja hefur umfjöllunin verið talsvert verri en slæm, því Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir fréttamaður hefur bókstaflega tekið að sér að tala sem verjandi Geirs og annarra hrunkvöðla. Í Kastljósi fyrsta kvöld réttarhaldanna át hún upp, með sannfæringar- og aðdáunarhljóm í röddinni, það sem sagt hafði verið af Geir og stuðningsmönnum hans, að „hann gat bara ekkert gert“. Engar gagnrýnar vangaveltur um hvort þetta væri rétt, hvað þá hvort það væri í sjálfu sér saknæmt af forsætisráðherra að gera ekkert.

Í gærkvöldi tók Jóhanna langt viðtal við Davíð Oddsson, þar sem ekki var spurt neinna þeirra erfiðu spurninga sem hún hefði spurt væri hún metnaðarfullur fréttamaður og hefði undirbúið sig. Jóhanna beit svo höfuðið af skömminni með því að spyrja Davíð, í lokin, hvaða skoðun hann hefði á núverandi ríkisstjórn. Allt saman með óblandinn aðdáunarhreim í röddinni.

Í gærkvöldi birtist líka sérkennileg frétt í RÚV þar sem m.a. má lesa þetta: „Sex vitni gáfu skýrslu fyrir landsdómi í dag. Allt voru þetta hátt settir embættismenn árið 2008. Skýrslur þeirra voru Geir Haarde frekar í hag.“ Þetta á væntanlega að útskýrast af því, sem kemur fram í fréttinni, að þessi vitni héldu fram að „ekkert hefði verið hægt að gera“ og að vinnan í samráðshópnum „hafi verið markviss og árangursrík.“ Þannig virðast fréttamenn RÚV telja sig vita að þetta sé góð málsvörn fyrir Geir (aðgerðaleysi vegna getuleysis), og að þannig hljóti dómararnir að hugsa. Engin (gagnrýnin) hugsun hér á ferð, hvað þá að mönnum detti í hug að það geti verið einhver alvara með ákvæðunum í þeim lögum sem kært er út af, um að aðgerðaleysi ráðherra geti verið í saknæmt.

Spegillinn, sem oft hefur verið með góða umfjöllun um þjóðmálin, hefur svo sett í þetta mál fréttamenn, sem sjálfir hafa greinilega ekkert undirbúið sig. Það sem verra er, þar er á hverjum degi talað við „góðkunningja“ Spegilsins sem á vanda til að tala í löngu máli, með afar hægum og „virðulegum“ talanda um … ekki neitt. Sú er líka raunin hér. Spegillinn virðist ekki telja það koma að sök að viðkomandi var ekki einu sinni viðstaddur réttarhöldin fyrstu tvo dagana, þótt rætt væri við hann þá daga líka, en hann „lét svo lítið að fara þangað í heimsókn í eigin persónu í dag“. Þetta er fimm mínútna viðtal, þótt texta þess megi flytja á skikkanlegum hraða á helmingi þess tíma. Hefði viðmælandinn þar að auki einskorðað sig við það sem voru einhverjar upplýsingar í máli hans hefði viðtalið hins vegar tekið um átján sekúndur. Þá hefði hann meðal annars sleppt fyrstu þrem mínútunum af þessum fimm, þar sem hann flutti eftirfarandi innihaldsríku ræðu, sem bregður óvenju björtu ljósi á þessi merkustu réttarhöld Íslandssögunnar, og útskýrir fyrir okkur hinum það sem annars hefði verið okkur hulið um alla eilífð. (Til að stytta textann hef ég klippt út allar kúnstpásur, sem eru um helmingur tímans):

„Þetta er náttúrulega heilmikil upplifun, þetta er auðvitað heimssögulegur viðburður sem þarna á sér stað, að þarna sé dreginn og látinn svara til saka forsætisráðherra þjóðarinnar fyrir, ja, fyrir stórfellda vanrækslu, ja það er það sem honum er borið á brýn, í aðdraganda efnahagshrunsins sem að við urðum fyrir. Þetta er mikil upplifun að sitja þarna og fylgjast þarna með hvernig þetta fer fram, hvernig saksóknari og verjandi bera sig við spurningarnar og hvernig hvernig vitnin haga sínum orðum og og sömuleiðis hvernig, hvernig dómarar, eftir atvikum, spyrja eftir því sem að þeim þykir efni til. Auðvitað má svona velta því fyrir sér sko, hvort að þessi leið til þess að draga fram atburði í aðdraganda hrunsins er sú skilvirkasta, þarna náttúrulega beinast spurningarnar náttúrulega að því að leiða í ljós atvik sem að tengjast þessum ákæruefnum, þannig að önnur aðferð, til að mynda einhvers konar sannleiksnefnd eða eitthvað, hefði náttúrulega verið með allt öðrum hætti.

[stutt spurning fréttamanns um Hreiðar Má Sigurðsson]

 

Jú, það bárust af því fréttir að annars vegar hefðu þarna, að minnsta kosti sést þarna öryggisvörður, og síðan að í salnum hefðu setið, meðan skýrslutakan yfir honum fór fram, menn frá sérstökum saksóknara. Það auðvitað minnir á það að þar sem hann fer er náttúrulega maður sem að af mörgum er talinn einn af helstu gerendum hrunsins, og sömuleiðis fer þar sem hann er maður sem að sætir ákæru fyrir umboðssvik og markaðsmisnotkun, ásamt fleiri mönnum. Þannig að hann náttúrulega hefur út af fyrir sig sýniiega verið í í ákveðinni aðstöðu þarna sem einkennist af því að hann þarf að gæta mjög að því hvað það er sem hann lætur sér um munn fara þannig að hann, ja, mögulega skaði ekki sjálfan sig í því máli sem fyrir liggur að verði höfðað gegn honum.“

 

Deildu færslunni