Í nýlegri frétt á RÚV er sagt frá athugasemdum Ólínu Þorvarðardóttur við kostun á stöðum starfsmanna háskóla, en hún nefndi sérstaklega stöðu Helga Áss Grétarssonar við Lagastofnun HÍ, sem kostuð er af LÍÚ. Hér verður ekki rakið það sem Helgi hefur látið frá sér fara um þessi mál í fjölmiðlum, en augljóst er að ýmsar staðhæfingar hans um þau eru ekki byggðar á óyggjandi niðurstöðum úr rannsóknum.
Í umræddri frétt er vitnað í forseta Félagsvísindavsviðs HÍ, Ólaf Þ. Harðarson, en hann „segir skólann huga vel að þessum málum, mestu máli skipti að fyrirkomulagið sé gagnsætt.“ Það þætti þó varla nóg í háskólum sem annt er um orðstír sinn sem sjálfstæðra rannsóknastofnana.
Það ætti t.d. að vera augljóst að framganga Helga Áss, sem LÍÚ greiðir fyrir, hlýtur að skerða traustið á sjálfstæði HÍ og orðstír sjálfstæðra rannsókna við skólann. Ég spurði forstöðumann Lagastofnunar, Maríu Thejll, hvort stofnunin hefði reglur um kostun utanaðkomandi aðila. Svar hennar var svohljóðandi (auk vísunar í 3. mgr. 26. gr. laga nr. 85/2008, um að háskólar megi semja við aðrar stofnanir og fyrirtæki um ráðningu kennara og annarra starfsmanna):
Lagastofnun hefur ekki sett sérstakar reglur um kostaðar stöður og er ekki kunnugt um slíkar reglur á vegum Háskóla Íslands. Starfsmenn í kostuðum stöðum eru ráðnir í samræmi við ráðingarferli samkvæmt reglum Háskóla Íslands og lúta nákvæmlega sömu reglum og starfsskilyrðum og aðrir starfsmenn háskólans við störf sín.
En það eru fleiri dæmi um blygðunarlausa (skilningsvana?) samtvinnun HÍ og valda- og hagsmunaaðila. Á vef Alþjóðamálastofnunar HÍ stendur meðal annars þetta:
Markmið Alþjóðamálastofnunar er að vera leiðandi í rannsóknum um alþjóðamál og smáríki í heiminum, að auka gæði og framboð náms um alþjóðamál og smáríki í grunn- og framhaldsnámi á háskólastigi, og að vera þjónustustofnun við atvinnulífið og hið opinbera. Stofnunin starfar með utanríkisráðuneytinu, Varnarmálastofnun Íslands, Samtökum iðnaðarins og Samtökum atvinnulífsins.
Að vera „þjónustustofnun við atvinnulífið og hið opinbera“ fer augljóslega í bága við hugmyndina um sjálfstæða rannsóknastofnun, og um það ætti ekki að þurfa að deila. Enda segir Ólafur Þ., í ofangreindri frétt RÚV:
En hins vegar hefur það iðulega gerst varðandi starfsmenn sem eru í stöðum sem eru kostaðar af ríkinu, og þá eru það stjórnmálamenn sem eru að gera athugasemdir við ummæli eða niðurstöður einstakra fræðimanna við Háskólann.
Það er e.t.v. ekki skrítið, því sumar deildir HÍ virðast lengi hafa litið á sig sem þjónustustofnanir við ríkisvaldið (og jafnvel hið svokallaða „atvinnulíf“, þ.e.a.s. atvinnurekendur af ýmsu tagi). Starfsmenn Lagadeildar HÍ hafa margir eytt gífurlegum tíma í vinnu fyrir hið opinbera (eins og fram hefur komið í fréttum nýlega, sjá t.d. hér), og vandséð að þeir stundi á meðan mikið af þeim fræðistörfum sem háskólafólki er ætlað (og sem það fær greitt fyrir stóran hluta af launum sínum við ríkisháskólana).
Það lýsir líka sérkennilegri afstöðu til háskólarannsókna að forstöðumenn „rannsóknastofnana“ við HÍ eru gjarnan fólk sem hefur lítinn eða engan rannsóknaferil að baki. Það gildir t.d. um ofangreinda Alþjóðamálastofnun, en einnig, að því er virðist, um Lagastofnun og sama gilti til skamms tíma um Félagsvísindastofnun, en algengt hefur verið að forstöðumenn þessara stofnana hafi ekki einu sinn lokið doktorsprófi, hvað þá að þeir hafi haslað sér völl sem öflugir fræðimenn.
Það er ástæða fyrir því að góðum háskólum erlendis dettur ekki í hug að setja í akademískar forystustöður fólk sem ekki hefur að baki umtalsverðan feril sem háskóla- og fræðafólk. Þetta vita allir sem kynnst hafa sæmilegu háskólastarfi á alþjóðavettvangi, en á þessu sviði eins og svo mörgum öðrum virðist valdafólk í íslensku háskólunum enn halda í hugmyndina að Ísland sé svo „sérstakt“ og Íslendingar svo miklir snillingar að hér geti hver sem er leitt háskólastarf sem sómi sér meðal bestu háskóla heims. Það er væntanlega af sömu ástæðu að meðal æðstu forystumanna HÍ og HR (um fimmtán talsins) er aðeins ein manneskja sem hefur reynslu af starfi á þeim alþjóðavettvangi þar sem þessir skólar segjast ætla að skara fram úr.
Til að þjóna þeim sem með völdin fara á Íslandi, bæði í stjórnkerfinu og efnahagslífinu, þarf hins vegar ekki annað en sæmilega þjónslund, og raunveruleg fræðimennska og gagnrýnin hugsun er þar bara til trafala.
PS. Rétt er og skylt að geta þess að innan HÍ og HR (og e.t.v. fleiri háskóla hér) er að finna talsvert af góðu vísindafólki, sem margt stendur framarlega á alþjóðavettvangi háskólasamfélagsins. Þetta fólk á hins vegar gjarnan undir högg að sækja, enda er starf þessara skóla meira og minna skipulagt með annað fyrir augum en að efla vísindastarf. Þar er oftar lögð áhersla á að styggja ekki þá sem ekki ná máli í því alþjóðasamfélagi sem vísindastarf er. Um það var lítillega fjallað hér, og meira verður e.t.v. gert af því í þessu bloggi síðar.