Um Landsvirkjun, hræGamma og Porter

Í gær kynnti Landsvirkjun nýja framtíðarsýn.  Í stuttu máli er hér lofað gulli og grænum skógum, nánar tiltekið að Landsvirkjun muni skapa tólf þúsund ný störf á næstu árum, að fyrirtækið muni skila ríkissjóði tugum milljarða króna árlega í framtíðinni og að þetta muni „hafa ámóta áhrif á lífskjör á Íslandi og olíuiðnaðurinn í Noregi.“

Svo verður þetta eiginlega allt gefins.  Að vísu þarf að tvöfalda orkuframleiðsluna, en það er auðvitað smámunasemi og svartagallsraus að leyfa sér að efast um að það sé meira en barnaleikur.  Enda eru höfundar þessarar skýrslu miklir fagmenn og reynsluboltar þegar kemur að spádómum um efnahagsmál.  Þeir vinna fyrir fyrirtækið Gamma (nei, nei, ekki hrægamma), og þeirra á meðal má finna a.m.k. tvo sem störfuðu í greiningardeild Kaupþings, og víðar í því sæla fyrirtæki, árin fyrir hrun.

Reyndar var efnahagsráðgjafi Gamma, Ásgeir Jónsson, forstöðumaður greiningardeildar Kaupþings í nokkur ár fyrir hrun og einnig dálítinn tíma eftir hrun. Ég man ekki til að hann hafi nokkuð þurft að leiðrétta eftirá staðhæfingar sínar um stöðuna fyrir hrun, svo ég geri fastlega ráð fyrir að hann hafi verið þar með allt á hreinu og varað við því sem vofði yfir.  Því væri fráleitt að draga í efa glæsta spádóma þessara snillinga um framtíðarorkuframleiðslu og meðfylgjandi ofsagróða Landsvirkjunar oss tilhanda.

Það var svo afar passandi að Kastljós skyldi í kvöld veita drottningarviðtal prófessornum Michael Porter, sem mátti vart vatni halda yfir þeim stórkostlegu tækifærum sem biðu Íslendinga í jarðvarmaklasanum svokallaða, sem hann virðist vera guðfaðir að, enda höfundur hugmyndarinnar um klasa, sem ein sér gerir heilu þjóðirnar fokríkar.

Porter vill sjá umfangsmikil ný orkuverkefni, og það sem fyrst.  Það liggur auðvitað mikið á, því hver veit nema öðrum takist annars að kviðrista gullgæsina á undan okkur.  Og auðvitað skiptir engu máli þótt afar lítið sé vitað um nýtingarmöguleika jarðhita, eða endinguna á slíkum virkjunum, það eru jú bara einhverjir jarðhitafræðingar sem eru með þess konar dragbítshátt.

Hér er um að ræða „hnattræna risaflóðbylgju tækifæra“ sagði Porter.  Íslendingar þurfa að vera „meiri frumkvöðlar, aggressívari, og áhættusæknari.“

Ætli hér einhverjir að malda í móinn, og muldra um „klisjur frá 2007“ eða hafa uppi efasemdir um að gulldrengirnir úr greiningardeild Kaupþings hafi fægt kristalskúlurnar nógu vel í þetta skiptið, þá er þeim vinsamlegast bent á að halda sér til hlés.  Við hin ætlum í þetta partí og fokkjú.