Álfatrúartrú Íslendinga

Því er stundum haldið fram að Íslendingar trúi á álfa og huldufólk.  Um þetta má deila, en fæstir vita þó uppruna þessarar trúar á álfatrú landsmanna.  Lausleg athugun leiðir eftirfarandi í ljós (í samræmi við þær hefðir sem virðast gilda í umræðum um þessi mál og skyld verður hér vandlega forðast að geta heimilda eða áreiðanlegra gagna):

Seint á áttunda áratug síðustu aldar átti ung bandarísk stúlka að nafni Li E., nýútskrifuð úr þarlendum háskóla, nokkra íslenska vini sem hún hafði kynnst í skólanum, og sem hana dauðlangaði að heimsækja.  Hún var auralítil og brá því á það ráð að fá Wall Street Journal til að borga undir sig far til Íslands, gegn því að hún skrifaði „human interest“ grein um þetta frumstæða land, en stöku slíkar greinar birtir blaðið til að lífga upp á annars dapurlegt líf helstu lesenda sinna, sem flestir eyða ævinni í að flytja tölur á milli bréfsnifsa í gluggalausum skrifstofum á Manhattan.

Þegar Li kom til landsins biðu hennar höfðinglegar móttökur íslensku vinanna, sem fóru með hana út á lífið og héldu henni þar við efnið í þrjár nætur og tvo daga.  Þegar hún raknaði úr rotinu á hádegi þriðja dags, og átti að fljúga heim síðdegis, mundi hún eftir greininni sem skyldi borga ævintýrið.  Nú voru góð ráð dýr, en henni tókst að kría út góðan afslátt, enda með afbrigðum lunkin  eins og samningur hennar wið WSJ gefur til kynna.  Li fékk sem sé einn af vinunum íslensku til að keyra sig út á flugvöll, ákveðin í að rekja úr honum garnirnar á leiðinni, og spinna úr þeim söguþráð í greinina.  Það gekk í fyrstu treglega, enda vinurinn bæði fámáll að upplagi, grúttimbraður og með svæsna garnaflækju.  Þó missti hann út úr sér, skömmu eftir að hann keyrði fram hjá Kúagerði, að þarna hefði afi hans fótbrotnað í vegavinnu eftir að hann  sprengdi steininn sem amma hans hafði sagt honum að í byggju álfar.

Í flugvélinni á leiðinni tilbaka til New York skrifaði Li í snatri grein um þessa sérkennilegu þjóð sem virtist í flestu hafa tileinkað sér háttu vestrænna manna, en trúði enn á álfa og huldufólk.  Greinin birtist viku síðar, undir fyrirsögninni „Where elves are all the rage“.  Hún var að sjálfsögðu þýdd og birt í Morgunblaðinu, og þess getið að bandarískur sérfræðingur í trúarbragðafræði hefði komist að því eftir áralangar rannsóknir að yfirgnæfandi meirihluti Íslendinga tryði á álfa, enda hefðu birst um þetta greinar í virtum tímaritum erlendis.

Síðan hafa Íslendingar trúað að Íslendingar trúi á álfa.

Deildu færslunni