Víst!

-Ég man nú ekki almennilega eftir þessu. Hvenær mun þetta hafa verið?
-Manstu þetta virkilega ekki? Þetta var kvöldið sem þú svafst hjá Friðriki Atla.

Ég fann mig missa kjálkann niður á bringu.
-Er ekki í lagi með þig? Ég hef aldrei sofið hjá Friðriki Atla.
-Víst!

-Þú hlýtur að vera að hugsa um xxx Ég hef ekki einu sinni fantaserað Friðrik Atla og er ekki viss um að ég myndi þekkja hann í sjón í dag.
-Nei, ég er ekkert að rugla honum saman við xxx.
-Jú það hlýtur að vera. Við Friðrik Atli eigum sameiginlega kunningja en ég minnist þess ekki að hafa talað við hann sjálfan nema einu sinni og þá var ég bláedrú.

-Kannski manstu það bara ekki. Þú varst pöddufull þetta kvöld.
-Gæskurinn minn, þótt ég verði mjög rugluð með víni þá getum við talið á fingrum annarrar handar hve oft þú hefur séð mig í því ástandi síðustu 13 árin og í þau fjögur skipti veit ég nákvæmlega hvar ég svaf, þ.e.a.s. heima hjá mér.
-Já en hann kom til þín. Ég keyrði þig heim og hann hringdi svo í þig.

Á þessu augnablikið var hann greinilega farinn að ljúga meðvitað. Ég setti í brýn.
-Hættu nú þessu rugli Drengur! Þessi maður hefur aldrei komið heim til mín eða ég til hans og þetta símtal er rugl líka.

-Þú hefur sjálf sagt að bólfarir festist ekki á harða disknum í þér. Ég er alveg viss um þetta.
-Heyrðu nú, yndið mitt. Jafnvel þótt það hefði ekki verið eftirminnilegt þá vissi ég nú samt af því ef ég hefði sofið hjá honum.
-Spurðu bara Þórunni Grétu!
-Ég þarf ekkert að spyrja hana Þórunni Grétu að því hverjum ég hef sofið hjá. Hvernig ætti hún líka að vita það, var hún kannski með í fjörinu?
-Unhh! Gott og vel. Ég er samt viss.

***

Eva: Hvað er þetta eiginlega með þennan dreng. Af hverju heldur hann að við höfum sofið hjá ÖLLUM?
Birta: Hann heldur það ekkert, hann er bara að reyna að veiða þig. Nefnir nöfn af handahófi og leitar að staðfestingu.
Eva: Það er fáránlegt. Hversvegna hefur hann svona mikinn áhuga á því hverjum ég kann að hafa sofið hjá fyrir mörgum árum? Og fyrst hann hefur svona mikinn áhuga á því, af hverju spyr hann mig ekki bara? Ég myndi ekki nenna að ljúga að honum.
Birta: Hann vill sennilega ekki að áhugi hans á ástarlífi okkar sé of augljós.
Eva: Nema ég sé í alvöru svo rugluð að ég viti ekki hvað ég geri? Kannski ætti ég að hringja í Friðrik Atla og spyrja hann?
Birta: Halló! Hvernig myndi það hljóma?
Eva: Þú meinar það. Kannski eins og ég sé á kafi í dópi. Eða snældugeðveik.
Birta: Já eða bara eins og þú sért að koma þér upp afrekaskrá. Kannski með einkunnagjöf og öllu. Næs.

Eva: Þú hefur örugglega ekkert sofið hjá honum er það?
Birta: Hmmm… Þar sem við búum í sama líkama hefði líklega ekki farið hjá því að þú tækir eftir því.

Eva: Hvernig í ósköpunum getur fólki annars þótt svona áhugavert hver sefur hjá hverjum?
Birta: Bíts mí. Kannski leiðist eymingja fólkinu svona mikið. Sápuóperurnar duga því ekki.
Eva: Mikið ósköp eiga mennirnir bágt.
Birta: Já og konurnar.
Eva: Og Drengirnir. Þeir eiga líka bágt.

Eva: Tókstu eftir þessu? Við erum sammála.
Birta: Nei, það getur ekki verið.