Norn.is

Eva Hauksdóttir

Norn.is

Víst ertu pabbi minn!

Hvernig flytur maður óboðinn inn á pabba sinn, sem maður þekkir fremur sem kunningja en föður? Ég hafði velt þeirri spurningu fyrir mér mánuðum saman. Vandamál nr. eitt var að flytja frá mömmu, það út af fyrir sig var nógu slæmt. Ég var búin að finna lausn á því. Sagðist endilega vilja fara í skóla fyrir sunnan. Hún sætti sig við þá skýringu, enda þótt hún hljóti að hafa gert sér grein fyrir því að ég var einfaldlega að flýja heimilisástand sem var hægt og bítandi að valda mér svefnleysi, taugaveiklun og líkamlegum streitusjúkdómum. Hvað pabba varðaði var málið óleyst. Hvað ef hann vildi nú mig ekki? Ég hafði ekki lagt neina rækt við samband okkar árum saman. Hafði sjaldan heimsótt hann og þá haldið mig sem mest úti eða kúrt yfir bókum og forðast að gefa honum nokkurt færi á að fá innsýn í mitt persónulega líf. Sjálfur var hann heldur enginn samræðusnillingur svo ég komst auðveldlega upp með að þegja. Símtöl okkar voru bæði stutt og snubbótt;
“hvernig gengur í skólanum?”
“bara vel”
“jæja já, og alltaf nóg að gera hjá þér?”
“já,já”
og svo nokkur jamm og jæja þar til ég bar því við að systur mínar vildu komast að. Ég óttaðist að honum þætti ég leiðinleg og þar sem móðir mín talaði alltaf um hann á fremur neikvæðan hátt var ég hreint ekki viss um að mér líkaði í rauninni við hann. Hann hlaut að átta sig á því að það var ekki einlæg þrá eftir meiri samskiptum við hann sem rak mig til hans, ég ætlaði bara að notfæra mér tengslin við hann. Þar fyrir utan var hann ekki einu sinni pabbi minn enda þótt allir héldu að ég héldi það. Hann átti nefnilega ekki blóðið í mér og eftir að ég komst að því hafði ég sýnt honum nánast algert afskiptaleysi.

Engu að síður var þetta staðan. Heima vildi ég ekki vera lengur og ég hafði ekki í önnur hús að venda. Það hafði að vísu hvarflað að mér að standa á eigin fótum en það samræmdist enganveginn sjálfsmynd minni að hætta í skóla til að afgreiða í sjoppu eða tína bein úr þorskflökum. Skóli var umhverfi sem ég þekkti og réði við en tilhugsunin um að slá ranga upphæð inn í búðarkassa olli máttleysistilfinningu í hnjánum og mér hafði auk þess alltaf verið sagt að það væru bara auðnuleysingjar sem ekki færu beint í framhaldsskóla. Þeirri firru trúði ég, enda þótt ég væri annars haldin þrætugirni um flest sem bar á góma. Í fullvissu þess að lífi mínu væri einfaldlega lokið ef ég drægi það í nokkra mánuði að fara í framhaldsskóla, flúði ég á náðir pabba míns, sem var eiginlega ekki pabbi minn enda þótt hann hefði alltaf greitt meðlag með mér og gert ótal tilraunir til að nálgast mig. Hann var pabbi systra minna því þeirra blóð var af hans blóði en mitt blóð var úr einhverjum kalli í Svíþjóð sem ég hafði aldrei séð.

Svo, hvernig flytur maður óboðinn inn á mann sem er ekki einu sinni fjarskyldur ættingi þótt nafnið hans hangi aftan við manns eigið? Og hvert fer maður ef hann segir nei? Ég leysti það með því að gefa honum einfaldlega ekki færi á að segja nei. Ég stillti mér upp fyrir framan hann, einbeitt á svip, krosslagði handleggina á brjóstinu og horfði beint í augu hans í von um að þau lýstu sannfæringu og ákveðni.
“Ég ætla að flytja til þín” hvæsti ég milli samanbitinna tannanna, tilbúin að halda aftur af táraflóðinu ef hann fyndi sér afsökun til að segja nei og fann greinilega sjálf að augu mín lýstu óöryggi en ekki ákveðni. Það hefði verið honum í lófa lagið að hafna mér. Hann bjó í lítilli einstaklingsíbúð sem hentaði enganveginn fyrir föður og unglingsstúlku, bara það var fullkomin skýring, hefði hann ekki treyst sér til að taka við mér.

En pabbi sagði ekki nei. Hann sagði “velkomin” og þrýsti mér að sér. Ekki fast og ekki lengi, bara rétt til að láta einlægni sína í ljós. Hann spurði ekki um ástæður né hversu lengi ég hyggðist stoppa en fór þess í stað í byggingarvöruverslun og keypti rennihurð til að skipta svefnherberginu í tvennt.

Fyrstu mánuðina þögðum við saman. Við hlustuðum á fréttirnar í hádeginu og fundum stundum umræðuefni út frá þeim en við ræddum aldrei neitt persónulegt. Pabbi vann vaktavinnu svo hann var oft að heiman á kvöldin og þögnin var ekki eins þrúgandi þegar enginn var til að tala við. Ég var alltaf fegin þegar hann var á kvöldvakt. Ég eignaðist fljótlega kærasta sem ég eyddi með öllum stundum sem pabbi var að heiman en þegar pabbi var í fríi átti ég að koma heim í kvöldmat. Þetta var eina reglan sem hann setti mér og ég var vön að virða reglur.

Þegar pabbi var heima á kvöldin fórum við í bíó, aðallega til að þurfa ekki að tala saman, held ég. Heima hjá mömmu var ég vön að vera með vinkonum mínum á kvöldin en ég fann greinilega að pabbi ætlaðist til þess að ég eyddi þeim kvöldum sem hann var heima með honum og ég hlýddi því þótt það væri í rauninni aldrei orðað. Við sáum hverja einustu mynd sem var sýnd í kvikmyndahúsunum þennan vetur og þegar við vorum búin að sjá allar bíómyndir sem voru í boði, fórum við í leikhús. Þegar leiksýningar voru uppurnar fór hann með mig á karatemót enda þótt ég hefði engan áhuga á karate. Afleiðingin varð sú að enda þótt við pabbi hefðum lítið um að tala, vandist ég nærveru hans og þau kvöld sem við fórum ekki út, sat ég þegjandi með honum yfir sjónvarpinu í stað þess að flýja þögnina í félagsskap annarra unglinga. Smám saman hætti það að vera óþægilegt. Við hlógum saman yfir sjónvarpsefni og bíómyndum og einn daginn tók ég eftir því að við hlógum stundum saman að einhverju sem engum öðrum fannst fyndið. Líklega var það fyrst þá sem mér fór að þykja vænt um hann.

Kannski var það bara af því að pabbi gerði ráð fyrir því að við færum saman í bíó, kannski þótti mér þetta þægileg leið til að vera samvistum við hann. Ég geri mér ekki alveg grein fyrir því en allavega fór ég með honum á kvikmyndir sem mér hefði aldrei dottið í hug að sjá nema af því að hann stakk upp á því. Hann var hrifinn af slagsmálamyndum og ég lét mig hafa það að sjá Eye of the Tiger og Bruce Lee myndir, þótt þær vektu ekki beinlínis áhuga minn. Og alveg án þess að gera sér grein fyrir því leiddi faðir minn mig inn í törfraheim hrollvekjunnar.

Hrollvekjur voru í tísku og pabbi hafði ekki hugmynd um að mér hafði aldrei verið leyft að horfa á efni í sjónvarpi sem var “bannað börnum” hvað þá meir, svo öll mín reynsla af hryllingi og spennu var bundin raunveruleikanum. Á næturnar vaknaði ég í svitakófi við martraðarkennda drauma um risakolkrabba, varúlfa og önnur lífshættuleg skrímsli sem áttu lítið skylt við afturgöngurnar sem ég ólst upp með. Á bernskuheimili mínu var allt morandi í draugum en ógnin heima við var ekki bundin þjóðsagnaarfinum sem bjó í húsinu. Ógnin heima var stöðugt spennuástand, tilfinning þess að búa á lifandi eldfjalli og von á gosi á hverri stundu. Draugar móður minnar voru félagsskapur sem trufluðu okkur lítið. Mamma trúði staðfastlega á drauga en hennar draugar voru ekki hættulegir. Aðeins andar hinna framliðnu sem áttu við hana erindi til spásagna eða til að krefjast greiða. Þessháttar draugar þrömmuðu kannski stigann um miðnættið, áttu til að skjóta mér vægan skelk í bringu en gerðu engum mein og létu sig hverfa um leið og maður sagði “komi þeir sem koma vilja, mér og mínum að meinalausu”. Ég var miklu hræddari við rotturnar í kjallaranum en þessi draugagrey.

Kvikmyndaskrímslin voru allt öðruvísi. Þau voru ekki aðeins ógreinilegur skuggi eða þrusk með spádómsgáfu, heldur lifandi verur sem bitu fólk á háls eða slitu af því útlimina einn af öðrum. Samt heilluðu þessar ljótu myndir mig jafnvel meira en Grimmsævintýrin gerðu um 8 ára aldurinn og sælustraumurinn sem fór um mig þegar ég vaknaði af martröðinni var dásamleg upplifun, merki þess að ég væri þrátt fyrir allt óhult, að hryllingurinn væri skáldskapur en ekki lifandi ógn um nýjan fjölskylduharmleik næsta dag og þar næsta, ógn um upplausn, öryggisleysi og reiðar raddir. Ég fór stöku sinnum í bíó með kærastanum, á sömu myndirnar og ég var þegar búin að sjá með pabba. En hryllingsmyndir sá ég eingöngu með pabba mínum. Mér fannst það á einhvern hátt líkt því að eiga sameiginlegt leyndarmál.

Ég var svöng fyrstu vikurnar hjá pabba. Faðir minn er óvenju matgrannur en ég var að taka vaxtarkipp og brenndi sennilega þrisvar sinnum meiru en hann og var auk þess alin upp við stöðugt huggunarát. Ég var kurteis og feimin og þegar pabbi spurði hvort ég væri södd eftir eina jógúrtdós eða tvær fiskibollur, kinkaði ég kolli og þakkaði fyrir mig. Þegar hann var farinn í vinnuna, át ég allt sem tönn á festi í húsinu en reyndi þó eftir megni að taka lítið af hverri tegund og fela öll ummerki. Það mistókst hrapalega. Brauðið hvarf úr frystikistunni, Cheeriospakkinn tæmdist á örfáum dögum og allt í einu var aldrei til kex eða ávextir á heimilinu. Pabbi nefndi þetta stjórnlausa át aldrei einu orði en þegar hann áttaði sig á því að átvagl var flutt inn á hann, sauð hann tvöfaldan skammt af fiskibollum og keypti nógu mikið af skyri og áleggi til að ég gæti étið nægju mína án þess að þess sæjust merki í ísskápnum.

Ég var ekki vön því að þurfa að biðja um neitt og hjá pabba upplifði ég blankheit í fyrsta sinn. Það var ekki af því að pabbi væri nískur heldur af því að hann skorti hæfni til að lesa hugsanir. Ég var alin upp við það viðhorf að það væri ókurteisi að biðja um eitthvað að fyrra bragði enda þurftum við þess ekki. Þótt samskiptamynstrið á heimili móður minnar væri óheppilegt, gætti hún þess alltaf að okkur krakkana skorti ekkert efnislegt. Heima hjá mömmu óx matur í ísskápnum, fatnaður í skápunum og peningar í vösunum eftir þörfum. Ég gætti systkina minna og fékk vasapeninga, fatnað og ýmsar gjafir í stað launa. Ekkert óhóflegt samt og við máttum aldrei heimta eða nauða. Ef mig langaði í eitthvað, bað ég ekki um það heldur benti á það og spurði hvort henni þætti það ekki fallegt. Þegar ég reyndi að koma pabba í skilning um þarfir mínar á þennan hátt sagði hann bara skoðun sína á hlutnum. Sennilega hefur það aldrei hvarflað að honum að setningin “finnast þér þessir skór fallegir?” merkti í raun: “skórnir mínir eru of þröngir og ég er orðin peningalaus.” Ég man að hann spurði hvort mig vantaði peninga nokkrum vikum eftir að ég flutti til hans en ég átti ennþá dálítið eftir af sumarlaununum mínum og sagði því nei án þess að taka fram að mig vantaði samt eitt og annað sem krefðist fjárútláta. Skóleysið leysti ég með því að koma mér upp hrifningu á kínaskóm. Þeir kostuðu aðeins 20% af venjulegu skóverði og á þeim slarkaði ég langt fram á veturinn í hálku og krapa, þar til faðir minn fór sjálfur með þá út í ruslatunnu og keypti almennilega skó á mig.

Ég hafði verið í launaðri vinnu um sumarið í fyrsta sinn og fannst ég rík en ég var heldur ekki vön því að þurfa að sjá mér fyrir nauðsynjum sjálf. Ég veit ekki ennþá hvort pabbi hefur áttað sig á því hvað mér þótti erfitt að biðja um peninga eða hvort útgangurinn á mér hefur bara farið í taugarnar á honum en þegar ég óx skyndilega upp úr fötunum mínum aðeins tveimur mánuðum eftir að ég eyddi nánast öllum sumarpeningunum mínum í skólabækur og fatnað, fór hann án nokkurra málalenginga með mig í bæinn og lét mig velja mér föt. Ég þurfti ekki að biðja um neitt og hann nefndi engar fjárhæðir en ég hélt að hann hlyti að vera fátækur og valdi það ódýrasta sem ég fann. Því tók hann ekki eftir og því miður fannst honum ég hafa “góðan smekk”. Hann kveikti heldur ekki á því að 16 ára unglingur kemst ekki af án vasapeninga, fyrr en ég var orðin svo blönk að ég fór með honum í Fjarðarkaup og setti dömubindapakka í innkaupakörfuna svo lítið bar á, í von um að hann tæki ekki eftir því. Hann nefndi það ekki og lét mig um að ganga frá vörunum þegar við komum heim en sama kvöld rétti hann mér peningaseðil með þeim orðum að fólk á mínum aldri ætti að geta keypt sér strætókort eða brjóssykurspoka án þess að gera grein fyrir því heima. Eftir það fékk ég vasapeninga mánaðarlega án þess að þurfa nokkurntíma að minna á það. Fjárhæðin var að vísu lægri en ég var vön að fá hjá móður minni en á hinn bóginn spurði pabbi aldrei í hvað peningarnir færu og þegar ég þurfti á aukafjárveitingu að halda til að koma í veg fyrir ótímabærar barneignir, fékk ég hana orðalaust, án kröfu um skýringar. Það var í eina skiptið sem ég bað pabba um peninga. Ég þorði það að vísu ekki en því síður þorði ég að verða ólétt og stundi því upp erindinu í krónum og aurum, reiðubúin með skýringu ef hann bæði um hana. En pabbi bað ekki um skýringu heldur rétti mér orðalaust það sem ég bað um.

Þannig lifðum við heilan vetur, í kurteislegri þögn. Pabbi reyndi að geta sér til um þarfir mínar án þess að spyrja óþægilegra spurninga. Ég reyndi að vera sem minnst fyrir honum og fela þær þarfir sem ég mögulega gat. Samskipti okkar voru vinsamleg en ekki alúðleg, við umgengumst hvort annað af virðingu en ekki ást. Við lifðum í líkamlegri nálægð við matborðið og í bíósalnum en áttum lítil persónuleg samskipti. Svo kom að uppgjöri. Ég veit ekki almennilega hvað varð til þess. Pabbi var að færa ýsuflök upp úr pottinum og ég var að leggja á borðið. Allt í einu fann ég hjá mér ómótstæðilega þörf fyrir að fá nokkuð á hreint. Við hliðina á eldhússborðinu var lítill skápur með mynd af ömmu minni frá því að hún var kornung. Ég tók myndina og skoðaði hana gaumgæfilega á meðan pabbi lagði fiskfatið og kartöflurnar á borðið.

“Ég er lík henni” sagði ég svo. Pabbi leit á myndina og svo á mig og hristi höfuðið forviða.
“Nei, þú ert hreint ekkert lík henni” sagði hann.
“Víst er ég lík henni” þrætti ég “Ég held að þú sért pabbi minn!” bætti ég við.
Hann þagði dálitla stund og horfði á mig.
“Auðvitað er ég pabbi þinn” sagði hann svo.
“Ég held að þú eigir blóðið í mér” orgaði ég og fann að tárin voru farin að renna niður andlitið á mér.

Pabbi gekk til mín og ætlaði að taka mig í fangið en ég barði hann hvað eftir annað með litlu hnefunum mínum þar til hann tók um hendur mínar og stöðvaði mig. Ég grét, en ekki með viðkvæmnislegum viprum um munnvikin og blikandi tári á hvarmi, heldur með háum stjórnlausum orgum. Hann tók utan um mig og hélt mér þétt að sér á meðan skyrtan hans gegnblotnaði af tárum og hori.
“Víst ertu pabbi minn! Hún hefur bara misreiknað sig eða ég hef fæðst aðeins fyrir tímann.” orgaði ég hvað eftir annað, þar til tárin hættu að streyma og samankrepptir hnefarnir slöknuðu.

Pabbi sleppti mér ekki.
“Nei” sagði hann svo “ég á ekki blóðið í þér og þú ert ekkert lík mér eða mínu fólki. Þú fæddist ekki degi fyrir tímann og það var einskær heppni að ég skyldi fá tækifæri til að verða pabbi þinn.”
Ég var aftur farin að grenja.
“Víst ertu pabbi minn!”
“Já, auðvitað!”
“Þú átt víst blóðið í mér.”
“Nei elskan mín”
“VÍST!”
“Nei. Enda skiptir það engu máli”
“Víst skiptir það máli!”
“Nei.”

Þessa rullu endurtókum við aftur og aftur með ýmsum tilbrigðum á meðan ýsan kólnaði á borðinu. Og þegar ég loksins sefaðist sagði ég það einasta eina sem mér datt í hug:
“Pabbi. Eigum við að ekki gá hvort er eitthvað nýtt í bíó?”

Daginn eftir skoðuðum við fasteignaauglýsingar og leituðum að stærri íbúð.