Virða => Það sem virðist. => Virða manneskjuna gaumgæfilega fyrir sér, reyna að horfa á meira en yfirborðið.Í ensku respect. Re-spect.
Re-spect => Að skoða aftur eða úr fjarlægð. Skylt því að taka tillit til.
Allir eiga rétt á virðingu. Þ.e. í merkingunni tillitssemi.
Ekki eru þó allir virðulegir eða virðingarverðir og þessvegna er stundum engu líkara en að orðið hafi þversagnakennda merkingu. Fólk sem segist bera fulla virðingu fyrir t.d. föngum á Litla-Hrauni, segir samt sem áður ekki að þarna fari virðingarverðir menn.
Allt virðingarvert fólk á það sameiginlegt að sýna öðrum eilítið meiri virðingu en þeir verðskulda. (Baraeilítið samt.) Og það sem gerir manneskju virðingarverða í mínum huga er fyrst og fremst viljinn til að taka ábyrgð á sjálfum sér. Orðum sínum, gjörðum og tilfinningum. Það er þannig sem maður virðir aðra. Það er sársaukafullt að taka ábyrgð á sjálfum sér og þessvegna margir sem forðast það þótt það sé farsælt til langframa. Fólki finnst oftast niðurlægjandi að viðurkenna mistök sín. Eins og slæm ákvörðun verði ekki að veruleika fyrr en sá sem tók hana er búinn að viðurkenna að hún hafi verið slæm og að það hafi veri hann sjálfur sem tók hana.
Samt sem áður er það að viðurkenna mistök sín, og bæta fyrir eða hafna tækifæri til að gera mistök á sama vettvangi aftur, oftast góð leið til að ávinna sér virðingu eða endurheimta hana. Stjórnmálamenn sem gera stór mistök gera t.d oft orðspori sínu stærstan greiða með því að sýna kjósendum þá virðingu (tillitsemi við dómgreind þeirra sem kusu hann) að segja af sér. Stjórnmálamaður sem tekur fulla ábyrgð á eigin ákvörðunum, gefur kjósandanum þar með tækifæri til að slaka á hefndarfýsninni. Þegar hann þarf ekki lengur að knýja fram viðurkenningu á því að stjórnmálamaðurinn hafi gert mistök, öðlast hann þá hugarró sem þarf til að virða málið fyrir sér frá fleiri hliðum og meta ódáminn frá fleiri sjónarhornum.
Það tíðkast að vísu ekki á Íslandi enda bera Íslendingar litla virðingu fyrir sínum pólitíkusum.
———————————–
Þessu tengt. Hvað á fólk eiginlega við þegar það segir að fólk þurfi að bera virðingu fyrir skoðunum annarra?
Posted by: Matti | 30.04.2008 | 10:16:33
———————————–
Væntanlega að taka tillit til skoðana annarra.
Posted by: Kristín | 30.04.2008 | 10:49:27
———————————–
Já en hvernig gerir maður það? 🙂
Posted by: Matti | 30.04.2008 | 10:51:18
———————————–
Það getur verið mjög flókið, ef þér finnst skoðanir ákveðinna virkilega abbast upp á, og hafa áhrif á, líf þitt. Þá hlýtur að vera erfitt að bera virðingu fyrir þeim og frekar skiljanlegt og/eða lógískt að einmitt reyna að hrófla við þeim. Og ef maður reynir að hrófla við skoðunum, reynir að breyta einhverju skoðanakerfi, er maður þá að taka tillit/bera virðingu? Hm, þegar stórt er spurt…
Posted by: Kristín | 30.04.2008 | 12:41:06
———————————–
Ég hef aldrei skilið þetta orð, sem ég hef þó heyrt frá blautu barnsbeini. Síðan las ég kvæði eftir Einar Ben sem inniheldur þessa línu: „Ótti er virðingar faðir og móðir.“
Þá fór að renna upp fyrir mér ljós.
Posted by: Elías Halldór | 30.04.2008 | 13:04:40
———————————–
Það er út í hött að segjast bera virðingu fyrir öllum skoðunum. Engu að síður er hægt að sýna fólki með rangar skoðanir ákveðna tillitssemi. Eða ef við viljum nota það orð; virðingu.
Svo ég taki öfgakennt dæmi:
Ég var einu sinni fangavörður í smátíma. Í starfi mínu kynntist ég manni sem fannst í fullri einlægni allt í lagi að nauðga konum, ef það væru „hvort sem er einhverjar druslur“.
Ég get enganveginn borið virðingu fyrir þessari skoðun. Engu að síður sýndi ég manninum þá virðingu að svara þessari biluðu skoðun sína með rökum en ekki persónulegu skítkasti. Mér hefði alveg þótt hann eiga skítkast skilið fyrst hann var „hvort sem er siðblindur ofbeldismaður“ en ef ég hefði látið það eftir mér hefði ég verið í sama flokki og hann sjálfur (bitamunur en ekki fjár) og mér fannst hann ekki nógu virðingarverður maður til að vilja líkjast honum.
Posted by: Eva | 30.04.2008 | 13:50:59
———————————–
Og ég held að það sé rétt að óttinn komi á undan virðingunni en það þarf ekki endilega að vera slæmt.
Óttinn við að spilla því sem er gott, óttinn við öryggisleysi og við höfnun samfélags eða einstaklinga, jafnvel árásir er það sem heldur okkur í skefjum og að vissu marki er það nauðsynlegt.
Posted by: Eva | 30.04.2008 | 13:54:40
———————————–
Líklega er þetta ofnotað orð, virðingin. En eins og ég skil það, sýndir þú manninum ákveðna virðingu með tillitseminni, sem aftur gerir þig virðingarverða.
Posted by: Kristín | 30.04.2008 | 15:18:06