Vinsældaþversögnin

peanutsTil eru nokkur einföld trix sem allir geta tileinkað sér og eiga víst að afla manni vinsælda. T.d. að brosa mikið, sýna viðmælandanum áhuga, gefa honum færi á að tala um sjálfan sig og hrósa honum. Forðast sjálflægni í lengstu lög.

Samskiptagúrúar á boð við Dale Carnegie kenna áhangendum sínum  að skapa svona „við eigum svo margt sameiginlegt stemningu“. Ef viðfang vinsældatrixprófunarinnar segist t.d. hafa ferðast til Trékyllisvíkur síðasta sumar, þá grípur þú tækifærið og segist eiga frænku sem bjó einu sinni á Trékyllisvík. Eða bara í einhverjum öðrum hundsrassi, trixið er að halda samræðunum gangandi, sama hversu þrautleiðinlegar þær eru. Og umfram allt að láta umræðurnar snúast um hina. Forðast spjátur, hæðni – ekki reyndar hlátra en mikilvægt að hlæja á réttum stöðum. Og ekki státa sig.

Þetta er auðvitað afskaplega geðþekkt. Örugglega til þess fallið að forða fólki frá óvinsældum. Ég þekki hinsvegar engan sem getur talist beinlínis vinsæll sem hegðar sér á þennan hátt. Allt vinsælt fólk sem ég þekki, frá leikskólaaldri og upp úr, á það sameiginlegt að vera mannblendið, frjálslynt og gætt miklu skopskyni og frásagnargáfu. En því finnst líka mun skemmtilegra tala en hlusta og er undantekningarlaust ívið hrifnara af sjálfu sér en efni standa til. Ég hef aldrei kynnst skemmtilegum manni sem leggur það á sig að hlusta á langar og leiðinlegar sögur fólks sem er laust við að geta talist áhugavert.

Leiðinlegur maður skilur ekki húmorinn þinn.
Geðþekkur maður hlær þegar þú segir eitthvað fyndið.
Skemmtilegur maður hlær þegar þú segir eitthvað fyndið og bendir svo á annan og ennþá fyndnari flöt á málinu og stelur senunni.

Það er ekkert skrýtið að fyndið fólk njóti vinsælda. Það undarlega er að skemmtilega fólkið fær oft einkunnina „fínn strákur“ (fyndnar konur eru sjaldgæfari en fyndnir karlar) þótt óhófleg sjálflægni virðist oft fylgja öllum þessum skemmtilegheitum.

Sumsé; ef þú vilt verða vinsæll, ekki reyna að geðjast doðadurtum sem vilja segja þér lítt spennandi ævisögur sínar. Prófaðu frekar að hegða þér eins og þeir sjálfhverfu vindbelgir sem pöpullinn elskar.

Verst að það virkar ekki baun nema þú sért líka fyndinn. Fátt er aumkunarverðara en leiðinlegt fólk sem reynir að segja brandara.

2 thoughts on “Vinsældaþversögnin

Lokað er á athugasemdir.