Veröldin

 

Myndin er eftir Emily Balivet

Á vorgrænum morgni,
gengur léttfættur drengur steinbrúna yfir ána
sem rennur meðfram húsi þínu.
Á höfði hans situr arnarungi.

Hann gengur grænar hæðirnar
mót sólu
og um hádegisbil
staðnæmist hann á klettabrún.

Þar sest hann niður á þverhníptum hamrinum
og horfir yfir Töfraskóg;
yfir Logná og Kólgu
yfir Álfheima og Iðavöll.
Niflheim sér hann ekki úr þessari átt.

Og þegar sól er hæst á lofti
stendur hann upp
hann strýkur vængi arnarins unga
að skilnaði.
Og styrkum höndum hefur hann fuglinn á loft og segir;
hvað sem þú vilt máttu heita,
hvert sem þú vilt máttu fljúga,
hvar sem þú vilt máttu verpa
en verði engill með húfu á vegi þínum
þá berðu henni kveðju frá mér.

Og af þverhnípinu
horfir hann á örninn fljúga mót sól
yfir alla heima hugsunar og tungu.