Valkostur

Sumir eru fæddir til eymdar. Þeir sem fæðast með alnæmi í stríðshrjáðu landi eiga ekki greiðan aðgang að ævarandi hamingju. En í flestum tilvikum á það við sem kona nokkur orðaði það svo vel að „eymd er valkostur“. Ég hef vel því fyrir mér hversvegna sumir kjósa að nema land í Eymdardal og setjast þar að. Maður hefði haldið að vistin þar væri nógu ömurleg til að enginn kysi hana sjálfviljugur. Allt hefur þó sína kosti og fyrst fólk velur sér þetta hlutskipti sjálft, hlýtur það að græða eitthvað á því. Ég hef óljósan grun um kosti þess að búa í Eymdardal og kannski eru þeir miklu fleiri. Allavega held ég að helsti ávinningur af því sé þessi:

-Þegar þú býrð í Eymdardal geturðu verið viss um að allt sem aflaga fer í lífinu er einhverjum öðrum að kenna.
-Það sem er augljóslega þér sjálfum að kenna er samt sem áður eitthvað sem aðrir hefðu átt að koma í veg fyrir.

Ef þú færð bréf frá Intrum er það kannski pínulítið af því að þú eyddir um efni fram en þó aðallega vegna þess að bankinn hafði ekki vit fyrir þér þegar þú settir þig í skuldir.

Ef þú missir heilsuna af völdum óhollra lifnaðarhátta er samt vítavert að heilbrigðiskerfið skyldi ekki grípa inn í nógu snemma.

Ef þú missir vinnuna stendur það kannski í einhverju samhengi við að þú gleymdir stundum að mæta, vannst verkin illa og misstir stjórn á skapi þínu við yfirmanninn, en þó fyrst og fremst af því að forstjórinn er helvítis kapitalistasvín.

Ef þú missir traust vina, maka eða barna í kjölfar lyga, svika og vanrækslu er alvarleiki málsins sá að þeir tóku ekki nógu mikið tillit til þess hvað þú áttir í rauninni bágt.

Ef þú kaupir þér flugfar beina leið til Helvítis en lýgur því að þínum nánustu að þú sért að flytja til Los Angeles, er það að nokkru leyti þeim að kenna að þú ferð til Helvítis vegna þess að þeir hefðu átt að vita að þú varst að ljúga og leggja sig fram um að stoppa þig í því.

Auðvitað hlaut það að vera. Fólk velur sér aldrei eintóma eymd, það verða alltaf einhverjir kostir að fylgja í farteskinu. Það besta við að búa í Eymdardal er samt að þegar þú dettur í það far að halda því fram að þú berir sjálfur ábyrgð á því hvernig komið er fyrir þér munu alltaf einhverjir bjargvættir koma hlaupandi og leiðrétta þann misskilning.

 

One thought on “Valkostur

  1. ——————————————

    Hjartanlega sammála!

    Posted by: Þorkell | 3.03.2007 | 14:33:00

    ——————————————

    Brill pistill.

    Posted by: hulda | 3.03.2007 | 21:38:41

    ——————————————

    sumum líður best illa

    Posted by: baun | 4.03.2007 | 12:54:30

    ——————————————

    Ég var að fletta upp einhverjum sögum eða leiðbeiningum um það hvernig bregðast má við svikum og lygum vina og fann þessa frábæru grein hér hjá þér!!
    Vonandi má ég byrta hana á minni síðu og þar set ég slóðina þína undir!!
    Kveðja
    Áhugasöm og forvitin 😉

    Posted by: Hulda Pulda | 3.05.2007 | 17:31:09

    ——————————————

    Sjálfsagt

    Posted by: Eva | 3.05.2007 | 20:04:05

Lokað er á athugasemdir.