Utangarðs

Merkilegir hugmyndakokteilar sem verða til í hausnum á manni í einhverju meðvitundarleysi.

Keli gaf mér alla fyrstu seríuna af þeim snilldarsjónvarpsþáttum „Six Feet Under“ í afmælisgjöf og nú er ég loksins búin að gefa mér tíma til að sjá þá. Þeir sýna líf fjölskyldu sem rekur útfarastofu svo dauði og greftrun koma heilmikið við sögu.

Í gær hringdi svo bekkjartrúðurinn úr Þelamerkurskóla í mig. Einhverjir úr hópnum eru að skipuleggja bekkjarmót og af flissinu og hvíunum á bak við hann að dæma var nefndin búin að sloka í sig ótæpilegu magni af æskuelexír. Erindið var að biðja mig um að fremja eitthvert „skemmtiatriði“ af því að ég hefði nú alltaf verið svo skemmtileg, eins og hann orðaði það. Merkileg hugmynd verð ég að segja. Held að fáir unglingar hafi notið minni vinsælda en ég og ég man aldrei nokkurntíma til þess frá þessum árum að hafa heyrt það um sjálfa mig að ég væri skemmtileg. Ég var jafn utanveltu þá og síðar. Almennt var ég sögð „háfleyg“. Það þótti ekki töff og það var enginn annar „háfleygur“ í skólanum. Ef ég væri að alast upp í dag væri ég líklega kölluð nörd (merkingarlaust orð sem er notað um allt jaðarfólk) en það orð var ekki komið í tísku.

Í sumar komu nokkrar stelpur úr þessum bekk á nornakvöld hjá mér og ein þeirra tók með sér gamla minningabók frá 7. bekk og sýndi mér. Ég hafði skrifað í hana: „Strákarnir hér eru ekkert sætir. Ég á einga vinkonu og mér er alveg sama.“ Ein með attitjúd eða hvað? Hið fyrra var haugalygi. Mér þóttu sumir þeirra virkilega sætir. Hið seinna hafði sorglegan sannleikskjarna. Það var engin stelpa í skólanum, né nokkursstaðar, sem ég fann til verulegar samkenndar með. Mig langaði ekki rassgat að eiga neina þeirra að vini. En mig langaði að eiga klessuvinkonu. Hugsaði stöðugt um það, þráði það. Ég man m.a.s. að ég velti því fyrir mér hvort ég ætti að ljúga upp vinkonu til að vera ekki alveg jafn hallærisleg en ein stelpan hafði logið upp kærasta sem enginn trúði á það varð mér víti til varnaðar. Ég held ég sé komin yfir þessa vinkonukomplexa núna en það er ekkert mjög langt síðan ég laug upp kærasta.

Svo dreymdi mig í nótt en ég man drauma mína blessunarlega sjaldan.

Mér fannst ég vera dauð og það var ósköp líkt því að vera lifandi. Ég hef lengi sagt að allt sem gerist eftir dauðann sé gert fyrir vini og ættingja og að ég hafi nákvæmlega enga skoðun á því hvað verði um líkið, hverjir komi nálægt því eða hvað verði jarmað yfir því og hvar. En í draumnum hafði ég skoðun á þessu öllu saman. Vildi ekkert jarm, því síður tónlist og allra síst áhorfendur. Ég horfði á hylkið af sjálfri mér liggjandi í brunabílsrauðri kistu í útfararstofunni úr six feet under og var þokkalega sátt við förðunina á líkinu en samt pirruð yfir því að kistan stæði opin. Strákarnir mínir voru eitthvað að ræða jarðarför. Darri hafði enga skoðun og sagði aðallega „uhhmph“ en Haukur vildi láta grafa mig í einhverjum anarkistagarði. Ég sagði við þá:
-Greyin mín látið nú ekki að dysja hræið af mér innan um einhverja költara. Ég var utangarðs í lífinu og fer best á því að ég verði utangarðs í dauðanum líka.

Mér fannst þeir taka þessari táknsýki minni með skilningi en allt í einu voru nokkur bekkjarsystkina minna úr Þelamerkurskóla komin. Þau voru ennþá unglingar. Ég vissi að ég var sú eina úr hópnum sem hafði elst. Hin voru enn í skólanum, flissandi og kelandi í hverju horni. Og ég vissi að þótt ég yrði grafin á efstra tindi veraldarinnar myndu þau flykkjast þangað til þess að grafa mig upp aftur.