Úrtölur

Eva: Hey, ég er alvöru lögfræðingur og ég er að vinna á alvöru lögmannsstofu. Er ég þá ekki bara þrælheppin?
Birta: Djííísús!
Eva: Hvað?
Birta: Þú er með skírteini – pappírsbút með tölum.  Það gerir þig ekki alvöru.
Eva: Víst! Það gerir mig auðvitað ekki góða. Það verður enginn góður lögfræðingur án þess að fást við alvöru verkefni en nú er ég einmitt að prófa það. Og þá hlýt ég að vera alvöru.
Birta: Alvöru verkefni? Við erum að tala um pínulítil, ómerkileg verkefni. Það er ekki eins og þú sért bara komin í fulla vinnu og um það bil að fara með mál fyrir Mannréttindadómstólinn.
Eva: Uh, einhversstaðar verður maður að byrja. Ég reiknaði ekki með að verða stjörnulöffi á fyrsta degi en ég er samt hér og þessar tölur sem ég skil ekki baun í eru mjög raunverulegt verkefni.
Birta: Jájá, það getur nú hvaða hálfviti sem er byrjað. Að ljúka verki er svo allt annað mál. Ég sé satt að segja ekkert sérstakt sem bendir til þess að þú ráðir við þetta. Við hljótum að geta verið sammála um það.
Eva: Hey! Lausnarinn hefur trú á mér. Nógu mikla trú á mér til þess að ég er hér núna. Og hann er lögmaður og hefur meira vit á þessu en þú.
Birta: Hah! Kennivaldsvilla!

Maður má segja hliðarsjálfinu sínu að þegja en þegar hliðarsjálfið er bæði sterkari karakter og töluvert rökfastara en maður sjálfur, þá hljómar það hálfmáttleysislega. Auðvitað reyndi ég samt. Ég reyni það alltaf.
Æi þegiðu! sagði ég og reyndi að hljóma freðýsulega.

Og hún sagði ekki meir. Brosti bara, eins og sá sem veit betur.