Undarlegt SMS

-Sæl Eva. Nafnið þitt og símanúmer var á bílastæðinu hjá mér á ……… í sumar. Bara að forvitnast hver ertu? kveðja. …….
-Ég fór ekkert til ….. í sumar og veit ekki hver þú ert.
-Kannast þú við gamlan BENS kálf á erlendu númeri var á stæðinu?

Bíll Rósarinnar. Það er svosem ekkert ótrúlegt að hún hafi týnt miða með símanúmerinu mínu á þessum stað en það hefur þá verið 14-16 júní. Velti því fyrir mér hvort hann langi að kaupa bílinn eða hvort eitthvað hafi komið upp á sem ég veit ekki um. Svara einfaldlega:

-Já.
-Hann var á bílastæðinu mínu í 2-3 daga. Númerið kom úr honum. Hvað vinnur þú?

Hmmm… þetta hljómar nú bara eins og maður sem hefur of mikinn frítíma og of lítinn félagsskap.

-Ég á ekki þennan bíl. Hvað viltu mér?
-Þetta var bara forvitni. SORRY.,… BÆ.

Eiga hástafir ekki að gefa til kynna að viðkomandi hækki róminn vegna hneykslunar eða gremju? Ætti ég, sem hef aldrei verið hrifin af því að nota sms sem samskiptaform, að hafa einhvern áhuga á því að halda uppi spjalli við mann sem fann miða með símanúmerinu mínu í innkeyrslunni hjá sér fyrir mörgum mánuðum? Gæti skilið ef hann hefði hringt um nótt, fullur eftir að hafa fundið miðann á klósettinu í Valaskjálf með skilaboðunum „vil ríða, núna“.

Ég spurði Lærlinginn hvort hann myndi geyma miða með símanúmeri, sem hann fyndi úti á bílaplani og senda sms í það 9 vikum síðar. Hann hugsaði sig aðeins um og sagði svo;
-Ekki í veruleikanum nei en í role play leik myndi ég líklega gera það.

Og þá áttaði ég mig á því að ég hef rekist á (eða smessast á við) annan fiksjónal karakter. Munurinn er sá að hann er persóna í tölvuleik eða role play, sem er líklega ekkert frábrugðið því að vera í sápuóperu. Og hann er svona pirraður af því að ég vildi ekki vera með í ævintýrinu hans. Þegar allt kemur til alls bauð hann sig fram sem þáttakanda í sápuóperu tilveru minnar, því þegar nákvæmlega ekkert markvert gerist í lífi manns eru það svona lítil, ómerkileg atvik sem halda sápunni feyðandi.

Nú hef ég nafnið hans og símanúmerið. Sem merkir að ég get fundið heimilisfangið ef ég kæri mig um. Ég gæti líka hringt í skattinn, hitaveituna og ýmsar aðrar stofnanir, þóst vera kærastan hans og fengið upp nákvæma skuldastöðu. Ég gæti innritað hann á bókhaldsnámskeið eða flutt lögheimilið hans. Auðvitað geri ég það ekki neitt. Glætan að ég myndi nenna því, jafnvel gagnvart fólki sem ég hef áhuga á. En ég gæti kannski sent honum póstkort með símanúmerinu hjá Vottum Jehóva eða eitthvað svoleiðis. Til að gera leikinn hans skemmtilegri.