Um peninga og mennsku

Ég á vinkonu sem er dálítið skotin í Kaþólsku kirkjunni. Henni finnst sannfærandi að fólk þurfi að gera yfirbót en ekki bara iðrast. Einu sinni vorum við að velta því fyrir okkur hvort maður gæti nokkurntíma verið viss um einlægni fólks þegar það biðst afsökunar. Það er svo auðvelt að blekkja okkur með innantómum orðum.

Vinkona mín sagði að þótt það hljómaði hallærislega þá væri sú aðferð heiðingjanna að krefjast fébóta sennilega öruggust. Hún sagði að næst þegar einhver drullaði yfir hana og kæmi svo og bæðist afsökunar ætlaði hún að samþykkja að taka hann í sátt gegn fjárhæð sem hæfði brotinu.

Þetta hefði auðvitað þann kost að maður þyrfti ekkert að velkjast í vafa um gildi orðanna en úff hvað ég væri fátæk í dag ef ég hefði þurft að borga sekt í hvert sinn sem ég hef sagt eða gert eitthvað sem ég hef séð eftir.

 

Peningar eru ágætur mælikvarði á tilfinningar og koma auðveldlega upp um persónuleika fólks. Ef þú veist hvaða afstöðu fólk hefur til peninga veistu hvernig það hugsar.

Prófaðu t.d. að troða peningum upp á einhvern af tilefnislausu. Fátt þykir okkur jafn vænt um og peninga og því gefum við nánast aldrei peninga nema vilja fá eitthvað í staðinn, þótt ekki sé nema sjálfsánægjan yfir því að gera góðverk. Þessvegna verðum við flest líka ráðvillt og öryggislaus ef einhver vill endilega láta okkur fá peninga án þess að krefjast neins á móti. Peningar eru einhvernveginn allt öðruvísi en allar aðrar gjafir. Ef einhver færir þér gjöf reiknarðu oftast með að hvatinn sé elskulegheit. Flest okkar taka brosandi við smágjöfum nema þær komi frá einhverjum sem við viljum helst ekki þekkja. Samt harðneitum við að taka við peningum án ástæðu, jafnvel mjög lágum fjárhæðum og þó er fátt í heiminum sem við þráum heitar en að eiga nóg af þeim.

Gefðu fólki peninga hvenær sem færi gefst. Ekki samt með því að borga fyrir kaffi vina þinna á kaffihúsi eða rétta fram fimmtíukall þegar einhvern vantar í stöðumæli. Jú gerðu það auðvitað líka af því að það er bara svo næs en svoleiðis gjafir segja þe´r ekkert um aðra. Gjöfin verður að vera formleg og ágeng. Gefðu samt aðeins svo lágar fjárhæðir að fólk geti ekki neitað að taka við þeim á þeirri forsendu að þú hafir ekki efni á þessu. Þú verður að geta notað rökin; ef ég gæfi þér blóm sem kosta það sama myndirðu þá særa mig með því að neita að taka við þeim? Þú getur reiknað með að þeir sem taka ekki við peningagjöf þrátt fyrir þessi rök séu nákvæmlega eins og þú heldur að þeir séu. Það eru hinir sem eru áhugaverðir.

Þeir fáu sem þiggja peningagjöf án tilefnis skera sig úr.

Fyrst eru örfáir sem þiggja án þess að velta tilgangnum fyrir sér. Þeir verða glaðir, æpa jess og telja sig bara heppna. Langoftast eru það börn sem bregðast svona við. Þá sjaldan að þú hittir fullorðið fólk sem bregst svona við, veistu að þú hefur hitt mann eða konu sem er ennþá haldinn sjálflægni barnsins. Slíkur spengill reiknar einfaldlega með því að allt gott sem hendir hann sé staðfesting á þeirri einlægu trú að hann sé nafli alheimsins og sólin skíni eingöngu til að þóknast honum. Hugsun hans nær ekki miklu lengra en; ég er heppinn af því að ég á það skilið, af því bara, hvenær fæ ég meira?

Stærsta hópinn skipa þeir sem líta á gjöfina sem merki um vorkunnsemi. Sumir verða tortryggnir og gera þér grein fyrir því að þótt þeir hafi ekki efni á að afþakka peninga, getirðu ekki reiknað með að fá neitt í staðinn nema þú takir strax fram hvað það eigi að vera. Viðhorfið er einhvernveginn svona: bissniss er bissniss og við getum kannað möguleikann á samkomulagi en þú prangar engum samningi inn á mig.

Hinir í þessum hópi líta á sig sem fórnarlömb og þiggja gjöfina sem hverja aðra ölmusu eða yfirbót fyrir það hvernig lífið hefur leikið þá. Hugsun þeirra um sjálfa sig er í þolmynd; mér er gefið núna af því að það er oftast níðst á mér.

Svo eru þessir örfáu sem taka við gjöfinni án þess að hafa búið sér til skýringu. Þegar þú horfir á einhvern taka við peningaseðli og horfa á þig með augnaráði sem segir; ég veit ekki hvað þetta á að þýða en það verður áhugavert að komast að því, þá veistu að þú hefur fundið einhvern sem hefur til að bera óvenjulegt hugrekki. Því ef hann liti bara á þig sem vitleysing myndi hann finna einhverja aðferð til að skila peningnum aftur.