Nokkur brögð eru að því að fólk rugli saman föstum orðasamböndum með svipaða merkingu. Eitt hroðalegt dæmi sem virðist vera að ryðja sér til rúms í íslensku málfari er spurningin út á hvað snýst þetta? Merkingarlega er þetta ótækt. Jörðin snýst um sólina og um sjálfa sig en ég veit engin dæmi þess að hlutir sem snúast, snúist út á eitthvað annað. Forðumst samslátt af þessu tagi. Segjum frekar um hvað snýst málið? Eða út á hvað gengur það?
Fleiri dæmi um algengar samsláttarvillur af þessu tagi:
- Að leita eftir — að sækjast eftir er slegið saman við leita að.
- Má ég leggja undir þig nokkrar spurningar? — Má ég bera undir þig eina hugmynd/eitt mál? er slegið saman við má ég leggja fyrir þig nokkrar spurningar?
- Afgreiða símtal — að eiga símtal/svara símhringingu er slegið saman við það að afgreiða viðskiptavin,
- Eiga ekki efni á einhverju — að eiga ekki pening er slegið saman við að hafa ekki efni áþví.
- Hafa sig að verki — að hafa sig allan við er slegið saman við að koma sér að verki.
Oft er málsháttum og orðatiltækjum líka slegið saman og það getur orðið frekar klúðurslegt. Ég man eftir viðtali við mann sem hafði leitað til sveitarfélagsins vegna tiltekins máls en sagðist hafa talað fyrir tómum eyrum.