Tilvonandi

Hráætan, hugsanlegur tilvonandi sambýlingur minn færði mér kraftaverkalyf og eitthvað hollt dulbúið sem sælgæti. Kraftaverkalyfið virkar á alla sjúkdóma. Maður getur tekið mikið í einu og orðið fárveikur, og losnað þannig við óværuna (í mínu tilviki berkjubólgu) með svæsnum niðurgangi og uppköstum á nokkrum dögum, eða maður getur tekið lítið í einu og læknast án aukinna óþæginda á 1-10 vikum.

Tilvonandi leist vel á herbergið, einkum þar sem ég reiknaði fastlega með að honum yrði veitt viðveruleyfi í stofunni á meðan dóttir hans væri að festa svefn.
-Ég hefði nú reyndar ekki hugsað mér að geyma þig bara inni í herbergi. Ég er eiginlega meira að leita að einhverjum sem er til í félagsskap og sameiginlegt heimilishald, sagði ég.

Hann virtist einhvernveginn ekki sannfærður um að félagsskapur og sameiginlegt heimilishald væri raunhæfur draumur og þegar ég sagði honum að mér þætti mjög gaman að halda matarboð, nefndi hann sérstaklega að hann væri á hráfæði og mikið í því að senda fólki ljós.

Þegar hann fór tók hann fram að hann væri ekki hræddur við tilhugsunina um að deila með mér heimili.

Er ég virkilega svo ógnvekjandi að fólk þurfi að taka það sérstaklega fram að það sé ekki hrætt við mig?