Þetta er náttúrulega bilun

Stefnumóti frestað vegna veikinda. Það er eiginlega bara fínt. Ekki fengvænlegt að mæta til mannaveiða með því hugarfari að leita uppi frágangssök. Þegar allt kemur til alls hef ég fyrir satt að ekki séu allir karlar fávitar þótt þeir sem maður vildi bæði blanda við geði og líkamsvessum séu vissulega í útrýmingarhættu.

Það vildi svo einkennilega til að Píparinn hringdi og spurði hvort ég yrði heima. Þar sem öll önnur kvöld vikunnar eru bókuð get ég ekki annað en litið á það sem einstaka heppni að hann skyldi vera viðlátinn einmitt í kvöld. Eftir mikla leit að kaldavatnsinntakinu, m.a.s. gönguferð niður í bílageymslu, var málið leyst og nú get ég farið í bað án þess að eiga brunaslys á hættu.
-Takk fyrir kaffið. Nú ætla ég að fara heim og biðja til Gvuðs, sagði Píparinn þegar hann kvaddi.
-Nú, ertu trúmaður? spurði ég dálítið hissa, því hann lítur sannarlega ekki út fyrir að hafa nokkurntíma gert tilraun til að þóknast heilögum anda og fjölskyldu hans, hvað þá að bera fagnarðarerindið áfram.
-Ekkert sérstaklega, sagði Píparinn, en ég ætla nú samt að reyna að fá Gvuð til að láta eitthvað annað bila hjá þér svo ég fái tæklifæri til að hitta þig aftur.

Til eru tvennskonar karlmenn: Bara fávitar og sjarmerandi fávitar.
Það er áreiðanlega eitthvað fleira bilað í lífi mínu en bara blöndunartækin.

 

One thought on “Þetta er náttúrulega bilun

  1. —————————————————————-

    Hvernig var botninn á honum? Náði iðnaðarmannaskoran uppúr?

    Posted by: Harpa | 24.01.2007 | 14:26:43

    —————————————————————-

    Neinei. Þetta er geðþekkasti maður en augu mín límdust ekkert sérstaklega við afturendann á honum.

    Posted by: Eva | 24.01.2007 | 18:17:10

    —————————————————————-

    hmmm kannski þessi þjóðsaga um iðnaðarmenn sé bara bull…

    Posted by: Harpa | 24.01.2007 | 18:46:23

Lokað er á athugasemdir.