Þessvegna þarf löggan i-pad

Ég hef mikið velt því fyrir mér hversvegna löggan þarf ellefu spjaldtölvur til að uppfæra facebook síðuna sína.

Lögreglan setur inn að jafnaði þrjú fremur ómerkileg innlegg daglega, oftast tilkynningar frá vegagerðinni eða svör við almennum fyrirspurnum um hraðasektir, hjólreiðastíga o.fl. sem maður hefði nú haldið að mætti alveg bíða þar til kapparnir komast niður á stöð.

Svör lögreglunnar sjálfrar við þessari spurningu eru á þá leið að þetta sé þáttur í tækniþróun, án þess að það sé neitt skýrt frekar.

Augljósasta skýringin sem mér hefur verið bent á er sú að hjá löggunni sé mikill biðtími og því gott að löggugreyin hafi tækifæri til að spila angry-bird. Þegar ég skoða teljarann minn sé ég líka að all mikill tími fer í það að fylgjast með blogginu mínu. Eflaust mun spjaldtölvuvæðingin auðvelda þeim lesturinn.