Þess vegna vil ég ekki banna fóstureyðingar

Ég hef stöku sinnum bæði á blogginu og facebook reynt að stofna til umræðu um almenna barnfyrirlitningu í nútíma samfélagi. Áhuginn er enginn.

Um helgina birti ég grein um fóstureyðingar og kallaði eftir umræðu um það hversvegna svo mörg börn væru óvelkomin í heiminn. Ég birti með greininni gamla mynd og umdeilda, kannski vegna þess hve stuðandi hún er. Það eru trúarnöttarasamtök sem unnu hana og birtu og já, þetta hefur virkað því samkvæmt teljaranum mínum hefur þessi grein fengið meiri lestur en allt annað sem ég hef skrifað um barnfjandsamlegt samfélags til samans. Bjóddu fólki upp á klám eða gvuð og það MUN lesa.

Nú rignir yfir mig pósti frá fólki sem skilur bara ekkert í því að manneskja sem hefur margsinnis lýst yfir andúð sinni á afskiptum yfirvalda af því hvernig fólk hagi lífi sínu, skuli vilja láta banna fóstureyðingar. Ég hef reyndar ekki sagt að ég vilji láta banna fóstureyðingar, en þar fer ekki fram hjá neinum að mér finnast þessar aðgerðir ógeðfelldar.

Ég vil ekki láta banna fóstureyðingar. Það væri auðvitað í þágu þeirrar skoðunar minnar að fóstrið eigi að njóta mannréttinda og þar sem lög móta viðhorf myndi það draga verulega úr fóstureyðingum. Hinsvegar myndi bann ekki leysa vandamálið. Fóstureyðingalöggjöfin varð til vegna þess að börn voru óvelkomin og þar liggur hundurinn grafinn, þau verða ekki velkomin þótt við tökum fyrir að fólk noti þessa andstyggilegu lausn.

Samfélag okkar er á yfirborðinu barnvænt. Góð dagheimili og leikaðstaða, skólamáltíðir, nóg afþreyingarefni, leikherbergi í verslunarmiðstöðvum. Þetta lítur vel út og fyrst við gerum ekki ráð fyrir að fólk sinni börnunum sínum eða að þau séu yfirhöfuð þátttakendur í samfélaginu, er þetta allavega skárra en að þau gangi sjálfala. Samt sem áður afhjúpa öll þessi gæði þá nöturlegu staðreynd að börn eru fyrir. Hversvegna þarf alla þessa dagvistun? Það er betra að börn borði mat í hádeginu en sælgæti en er eitthvað eðlilegt við samfélag sem er þannig skipulagt að fjölskyldan hittist ekkert fyrr en á kvöldin? Hversvegna er svona mikil þörf á afþreyingarefni fyrir börn sem eru í daggæslu 30 tíma á viku eða meira? Hvað er það heima hjá þeim sem er svona leiðinlegt, eða mega þau kannski bara ekki vera með fullorðna fólkinu? Hversvegna taka innkaupaferðir svo langan tíma að ástæða sé til að koma börnum í ævintýraland á meðan?

Í alvöru talað. Auglýsingar endurspegla veruleikann. Mér ofbauð fyrir nokkrum vikum þegar ég sá auglýsingu sem hvatti fólk til að kaupa áskrift að grilljón sjónvarpsstöðvum og sofa sjálft fram eftir á meðan barnið sæti við sjónvarpið, koma því svo snemma í bælið og setjast við sjónvarpið sjálft. Ég hef ekki séð nein mótmæli við þessari auglýsingu. Af hverju ekki? Jú, vegna þess að hún er ekki móðgandi, hún sýnir veruleika sem fólk þekkir og er sátt við.

Hversvegna er það svona útbreidd skoðun að börn séu fyrir? Er hægt að breyta því?

 Eva | 12:29 | Varanleg slóð |

 

TJÁSUR

Það er svona mikil daggæsluþörf af því að ein fyrirvinna er ekki nóg og margar einstæðar mæður. Ég held að það yrði ekki skárra ef hundruð unglinga til viðbótar myndu drita niður börnum.

Posted by: Sigrún | 4.05.2010 | 14:54:47

Ein fyrirvinna er ekki nóg miðað við þær kröfur sem við gerum og það er eðlilegt að fólk setji sér lífsgæðastandard í samræmi við það sem tíðkast í næsta umhverfi þess. Hinsvegar dugði ein fyrirvinna fyrir 30-40 árum.

Mér finnst spurningin bara ekki vera hversu slæmt það yrði ef fleiri unglingar eignuðust börn, heldur hvernig stendur á því að unglingsstúlkur verða óléttar þegar aðgengi að getnaðarvörum er svona gott. Það er algerlega tilgangslaust að tuða um að fólk eigi bara að passa sig. Við þurfum að finna út af hverju fólk passar sig ekki.

Annars eru fóstureyðingar algengastar hjá konum milli 20 og 30 ára en ekki hjá unglingum.

Posted by: Eva | 4.05.2010 | 16:13:47

Var lífið alltaf betra fyrir svo og svo mörgum árum. Man ekki eftir því sjálf að neinn af foreldrum vina minna hafi verið heimavinnandi (20-30 ár síðan). Ekki að það skipti mestu máli.

Elst sjálf upp hjá einstæðri móður sem eins og gefur að skilja hafði ekki kost á því að vera heima. Vorum svo heppin að eiga frábæra afa og ömmu sem eyddu tíma með okkur eftir skóla (þá var skólinn búinn á hádegi t.d). En það sem Mamma kenndi mér þá er að það skipti ekki máli hvað mikinn tíma við fengum saman heldur skipti gæði tímans öllu máli. Hún kennarinn eyddi öllum sínum degi í að vera voða almennileg við annarra manna. Eftir skóla hjá sér ætlaði hún því ekki að koma heim og eyða tímanum í að skamma okkur og siða til. Hún vildi njóta tímans og bakaði með okkur bollur, las ævintýri og ég upplfði svakalega hamingjusama æsku þar sem ég man aldrei eftir mömmu vinnandi. Man bara eftir frábærum stundum sem við eyddum saman.

Hún kennarinn segist finna mikin mun á foreldrum í dag og fyrir 20 til 30 árum síðan en foreldrar í dag taka báðir miklu meiri þátt í barnauppeldinu og sýna jafnmikinn áhuga á öllu skólastarfi og mæta á allar skemmtanir. Áður fyrr var þetta oft bara mamman.

Langloka hjá mér en ég ætla ekki að vera með samviskubit yfir því að vera útivinnandi. Tel að það skipti meira máli að njóta tímans sem við höfum saman, börn þurfa að vera í kringum vini sína og elska að vera í skólanum. Það er gæði tímans sem skiptir máli og hvað með það þó að stöku sinnum sé sett dvd mynd í tækið? Áður fyrr var dvd myndin bara eitthvað annað.

Posted by: Inga | 10.05.2010 | 0:40:46

Ég er ekki að biðja nokkra manneskju að hafa samviskubit yfir því að vinna úti. Ég var sjálf í háskólanámi og vann með skólanum þegar mínir voru litlir. Hinsvegar finnst mér slæmt að skuli varla teljast valkostur lengur vera heima með börnin sín.

Ég held reyndar að lífið hafi að mörgu leyti verið verra fyrir svo og svo mörgum árum en þrátt fyrir meiri fjárhagsstuðning við barnafólk, fleiri dagvistunarpláss, fleiri og fjölbreyttari námstækifæri og sérstaka tilhliðrunarsemi við einstæðar mæður sem vilja fara í nám, meiri ráðgjöf og stuðning við fjölskyldur í uppeldisvanda og með félagsleg vandamál og almennt betri lífskjör, virðast börn ekkert velkomnari en áður fyrr.

Posted by: Eva | 10.05.2010 | 9:36:49

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.