Þér eruð leggöng

Þessi orðaskipti urðu mér innblástur þótt yrkisefnið sé reyndar allt annað.

Þú ert varla meira en skugginn af sjálfri þér“
sagðir þú.

Hugsaðir líklega ekki út í það
að skuggi minn er stærri en ég sjálf.
Og smýgur undir.

Og birti til
mun hann vafalaust hnipra sig að fótum mér.

En auðvitað sagði ég það ekki.
Spurði bara hvort skuggi væri nokkuð verri
en spegilmynd.

Þegar þú varst farinn
horfði ég á yfirgnæfandi skuggann af sjálfri mér
og ákvað að kaupa handa honum þráðlausan síma.

„Vinsamlegast hafið samband við skugga minn
ef þér viljið koma á framfæri kvörtun
eða annarskonar ástarjátningu.“

Það hljómar bara ekki eins kurteislega
og „þér eruð leggöng ungfrú Sóley“
og ekki vill maður vera dónalegur
við viðmælendur sína.

Var ég Sóley, sólufegri,
þar sem ég sat í skugganum?
Og beið.

Eða hnipraði ég mig
að fótum hennar,
í skugga búsáhaldarbyltingar
sem hefði getað orðið eitthvað,
eitthvað meira en skugginn af sjálfri sér
svona gulur og glaðlegur skuggi.
Sóleyjarskuggi.