Þegar Þvagleggur sýslumaður gerðist aðalpersóna í fjölskylduharmleik

Sögurnar af óvenjulegum vinnubrögðum Þvagleggs sýslumanns, gætu eflaust fyllt heila bók. Flestir þekkja söguna af því hvernig Þvagleggur fékk viðurnefni sitt en ég hygg að einhverjir hafi gleymt sögu Helgu Jónsdóttur og fjölskyldu hennar. Sú saga varpar ljósi á frumlegar hugmyndir Þvagleggs sýslumanns um refsivörsluástæður.

Helga og fjölskylda hennar lentu í hörðum áreksti á Suðurlandsvegi vorið 2007. Maðurinn hennar var við stýrið, þau hjónin slösuðust en aðrir sluppu ómeiddir. Þegar þau voru um það bil að jafna sig eftir erfiðleikana í kjölfar slyssins, barst manninum kæra frá Þvagleggi sýslumanni. Hann var sumsé ákærður fyrir að valda konu sinni tjóni af gáleysi.

Helga skrifaði Þvagleggi, útskýrði fyrir honum að það væri hvorki vilji hennar né þjónaði það hennar hagsmunum ef málið færir fyrir dómsstóla og bað hann í einlægni um að falla frá kæru. Hún hafði m.a.s. góð læknisfræðileg rök fyrir því að saksókn væri líkleg til að valda henni enn meiri þjáningum.

Enda þótt í lögum sé heimild til að falla frá saksókn í slíkum málum ef brotið hafi valdið ákærða þjáningum og það þyki ekki brýnt af almennum refsivörsluástæðum varð Þvagleggur ekki við þessari beiðni.

Það mun einsdæmi í málum af þessu tagi að maður sé dreginn fyrir dóm þegar tjónþoli er honum nákominn og óskar ekki eftir saksókn. Það hlýtur því að vera af almennum refsivörsluástæðum sem maðurinn var ákærður. Þvagleggur sýslumaður lítur ekki á kynferðisofbeldi gagnvart barni (sem aukinheldur er stutt með sönnunargögnum sem annars er sjalgæft í þessháttar málum) sem góðar refsivörsluástæður. Þegar um vítavert gáleysi í umferðinni (sem ég er ekki að réttlæta) er að ræða, sér hann hinsvegar enga ástæðu til að beita þeim mannúðarákvæðum sem hefð er fyrir allsstaðar annarsstaðar á landinu.

Líklega hefur Þvagleggur sýslumaður ekki verið búinn að taka upp verndarstefnu sína gagnvart brotaþolum þegar þessir atburðir áttu sér stað. En batnandi manni er best að lifa, Þvagleggur sýslumaður hefur líklega lært sína lexíu eftir fjölskylduharmleik Helgu Jónsdóttur og ákveðið að vernda brotaþola framvegis gagnvart meira tjóni, með því að sleppa því að leggja fram kæru.

Ég hvet lesendur til að lesa aftur sögu Helgu Jónsdóttur, greinin heitir ‘Hvenær eiga stjórnvöld að strá salti í sárin’ og birtist í Fréttablaðinu þann 2. maí 2008.

 

One thought on “Þegar Þvagleggur sýslumaður gerðist aðalpersóna í fjölskylduharmleik

  1. ————————–

    Þetta vissi ég ekki og takk fyrir að benda á þetta. Ég veit að Þvagleggur lagði fólk beinlínis í einelti á Ísafirði bæði sem skattstjóri og sýslumaður. Hann hyggst ekki segja af sér eftir síðustu afglöp en Ögmundur gæti vikið honum frá.

    Posted by: Valdís Stefánsdóttir | 2.07.2011 | 8:19:23

Lokað er á athugasemdir.