Þefur

Ég hitti Ásdísi í gær. Hef ekki séð hana í mörg ár og hef enga afsökun. Hún vill endilega kynna mig fyrir einhverjum manni. Ég veit ekki hversu vel mér líst á það því hann er eldri en ég.

Mér finnst ekki spennandi að hitta eldri menn. Aðallega af því að ég kann ekki við lyktina af þeim. Ég á ekki við neina pest eins of honum Angantý, heldur þennan ógeðfellda undirtón sem einkennir flesta eftir þrítugt og angrar mann ekkert nema maður sé alveg ofan í viðkomandi. Sennilega bara trix náttúrunnar til að draga úr líkunum á því að fólk sé að fjölga sér fram á elliár en það virðist enginn taka mark á þessum augljósu skilaboðum nema ég. Vinkonur mínar segja ýmist að þær finni ekki þennan mun á líkamsþef fullorðinna manna og ungra, eða þá að þær halda því fram að þessi viðbjóðslegi hormónadaunn sé æsandi. Það sama á við um menn sem ég hef verið með. Ég hef spurt þá hvort sé komin kerlingalykt af mér og þeir láta eins og þeir komi af fjöllum.

Einn og einn er laus við þennan einkennilega þef. Ég veit ekki af hverju. Verst að maður kemst ekki að því nema með meiri nálægð en svo að maður geti gengið úr skugga um það strax. Mér finnst samt ennþá verra að hafa ekki hugmynd um það hvort þessi ógeðfelldi fullorðinsþefur loðir við mig líka.

Fólk ætti að mynda ástarsambönd ungt svo það verði samdauna.