Ég sakna Alexanders. Ekki bara af því að hann er skemmtilegur, heldur líka af því að hann hefur þann karlmannlega hæfileika að geta opnað krukkur án þess að fá sinaskeiðabólgu.
Einu sinni sagði Alexander að hann hefði séð nokkrar útfærslur af hjálpartækjum fyrir einhleypar konur sem vilja geta opnað krukkur án þess að hringja á slökkviliðið. Ég sagðist hafa prófað 2 slíkar og að hvorug hefði virkað sérlega vel. Hann spurði í framhaldi af því hvort engum uppfinningamanninum hefði dottið í hug að hanna krukkur sem konur geta opnað.
Ég kann ekkert að hanna krukkur en ef einhver annar vill taka verkið að sér, þá skal ég gera lífstíðar samning við þann hinn sama um að kaupa eitthvað í slíkri krukku, eigi sjaldnar en vikulega. Annars endar með því að ég neyðist til að gifta mig.
Ekki þar fyrir að ég væri alveg til í að gifta mig.
Það mætti samt helst ekki vera þannig að þegar ég væri spurð hversvegna ég hefði gifst honum að þá yrði ég að svara; hann er svo dulgegur að opna krukkur.
——————————————
Ekki ætla ég að reyna að finna upp svona krukkulok, en ef maður grípur um lokið með sandpappír er þetta yfirleitt ekkert mál. Annars smeygi ég líka yfirleitt hníf undir og til að koma lofti inn í krukkuna og þá losnar lokið eins og skot.
Sko, engin þörf á að gifta sig 😉
Posted by: hildigunnur | 11.07.2008 | 10:00:11
——————————————
Frú Varríus kom við hjá mér áðan og færði mér að gjöf hjálpartæki einhleypu húsmóðurinnar, þennan líka fína krukkuopnara. Nú verð ég eiginlega að kaupa sultu til að prófa gripinn.
Kærar þakkir frú Varríus. Grái Kötturinn hefur ekkert látið sjá sig í morgun. Hann opnaði krukku fyrir mig í síðustu viku og er sennilega dauðhræddur um að ég ætli að giftast honum. Hann verður sjálfsagt dauðfeginn þegar hann sér að ég hef enga ástæðu til þess lengur.
Posted by: Eva | 11.07.2008 | 13:36:25
——————————————
Ertu viss um að það sé ekki bara innþrýstingurinn sem er að gera þér lífið leitt? Þegar krukkur eru erfiðar dugar það mér yfirleitt að láta þær standa á borði og leggja smá þunga í takið til að þrýsta lokinu niður um leið og ég skrúfa það, ef þú fattar? Það dugar mér yfirleitt. Nú eða að nota hníf til að hleypa lofti inn.
Posted by: Unnur María | 11.07.2008 | 18:32:20
——————————————
Best reynist einhverra hluta vegna að hvolfa krukkunni og flengja hana þéttingsfast. Ef það dugar ekki þá er gott að láta heitt vatn renna á lokið og rasskella svo.
Ég hef ekki reynt trikkið hennar Unnar en geri það næst þegar ég lendi á erfiðri krukku.
Svo hef ég fulla trú á því að horfa með andstyggðar augnarráði á krukkuna og segja henni að innihald hennar sé baneitrað. er næstum óbrigðult
Posted by: Spörri | 11.07.2008 | 23:32:56
——————————————
Verði þér að góðu kæra Eva. Þó að frú Varríus sé svo lánsöm að hafa herra Varríus svo iðulega við hendina þegar skrattans krukkulokin sitja sem fastast þá kemur líka svo iðulega fyrir að hún er ein heima hjá sér og þarf nauðsynlega að opna krukku sem – eins og allir vita er ekki hægt nema hafa eiginmann eða krukkuopnara við hendina. Héðan í frá munu öll krukkulok möglunarlaust losa tak sitt og auðmjúk bjóða þér upp á innihaldið. Það held ég.
Posted by: Hulda H. | 12.07.2008 | 0:45:45
——————————————
Svor er hægt að láta krukkuna á borð, hugsa fagra hugsun um stund og strjóka sér létt um kviðinn. Þá oppnast yfirleitt allar krukkur fyrirhafnarlítið.
Posted by: G | 13.07.2008 | 7:51:52