… þar til loks ég sef í jörðu

Mæja frænka er dáin, södd lífdaga. Það tók skjótt af eftir að hún veiktist. Engin sorg, ekkert torrek, bara líf sem var einu sinni og nú er það liðið.

Mæja var glæsileg kona og hafði stórt skap en gott. Hún var barnlaus. Henni þótti ofurvænt um afa minn og ég held að hún hafi í aðra röndina litið á mig sem sitt barnabarn. Allavega saumaði hún kjóla á mig á meðan hún hafði heilsu til og bauðst alltaf til þess að fyrra bragði. Síðasti kjóllinn sem hún saumaði var handa mér var tvískiptur, bleikur og enn í notkun. Hún keypti líka 11 eintök af ljóðabókinni minni, fleiri en allir aðrir ættingjar mínir samanlagt, og hringdi í mig til að gefa skýrslu um fádæma hrifningu hvers og eins sem hún hafði gefið eintak.

Ég er ekki mikið fyrir jarðarfarir. Ég á erfitt með að þola mærðina í fólki sem afber ekki æðruleysi mitt gagnvart dauðanum og reynir að telja mér trú um að kuldabolinn í mér sé merki um bælingu eða að sorgin komi bara seinna. Mér finnst dauðinn yfirleitt ekkert sérstaklega harmrænn og ef ég á annað borð finn fyrir missi, þá vil ég fá að syrgja í friði fyrir kristindómnum og harmarunkliðinu. Þessvegna mæti helst ekki í jarðarfarir nema mér finnist beinlínis dónaskapur að gera það ekki. Reyndar mætti ég ekki einu sinni þegar amma dó, þótt það væri eiginlega dónaskapur að sitja heima. Ég var slæm á geðinu á þeim tíma og treysti mér hreinlega ekki til að horfa upp á sorgarhræsni ættingjanna sem áreiðanlega fundu meira til léttis yfir því að jarða manneskju sem lengst af hafði verið sjálfri sér og öðrum til ama.

Ég finn ekki fyrir neinni óþægindatilfinningu við tilhugsunina um að fylgja líkinu af afasystur minni til grafar. Þetta verður í annað sinn á ævinni sem ég verð viðstödd jarðarför af öðrum hvötum en hefðarrækni.

 

One thought on “… þar til loks ég sef í jörðu

  1. ————————————————–
    Ég þekkti Mæju mest lítið. Fannst hún samt rosa góð og indæl.

    Eiginlega mest því hún talaði svo fallega um afa minn og horfði svo fallega á Jóa minn þegar við heimsóttum hana í þetta eina sinn.
    Dálítið vont að viðurkenna það núna, eftir að ég fór að hugsa áðan… En ég hugs að ég hefði ekkert endilega boðið henni í ferminguna hans Atla Hauks, þótt við heðum verið heima. Mest af því að mér finnst kjánalegt að bjóða fólki sem hann þekkir ekki. En sennilega hefði ég farið í jarðaföina hennar.
    Er þetta ekki BARA hræsni???

    Vona að þér líði vel elsku sistir. (með ufsiloni?)

    Posted by: Hulla | 8.04.2008 | 21:12:08

    —   —   —

    hvar og hvenær er jarðarförin (bara að spá hvort ég sé að syngja…)

    Posted by: hildigunnur | 8.04.2008 | 21:45:57

    —   —   —

    merkilegt.. þig þekki ég ekki en mér var bent á síðuna þína. Mæja afasystir þín var líka afasystir mín, þannig að mér fannst ég verða að kvitta.

    kv Mæja

    Posted by: María Viðarsdóttir | 9.04.2008 | 21:05:16

Lokað er á athugasemdir.