

Þurs er bölrún, sú öflugasta í rúnarófinu. Þurs er rún óhamdrar náttúru sem ekkert verður við ráðið. Í galdri er hún notuð til að kalla bölvun yfir óvin en þar sem Þurs er vandmeðfarinn getur slíkur fordæðuskapur auðveldlega snúist í höndum manns og því best að láta hann eiga sig.
Í rúnalestri táknar Þurs áfall sem spyrjandinn getur ekki komið í veg fyrir, svosem náttúruhamfarir, efnahagshrun, sjúkdóma og dauða. Það sem hann getur gert er hinsvegar að bregðast við áfallinu, gera ráðstafanir til að draga úr afleiðingunum ef hann sér það fyrir og muna að það er engin skömm að leita hjálpar. Það gerðu víkingar einmitt þegar þeir ákölluðu guði sína.
Úr eða Úruxi er tákn nautsins sem plægir jörðina. Uxinn fer ekki mjög hratt en hann lætur engar fyrirstöður stöðva sig, Þetta er því rún styrks og þrautseigju. Í galdri er hún notuð til að efla viljastyrk og einbeitingu að einu markmiði.
Eins og nafnið gefur til kynna er Fé rún búfénaðar sem er forgengileg eign en um leið eign sem getur ávaxtast. Fé er notuð í galdri til þess að auka möguleika á hagnaði.
Norræna rúnarófið er kallað fuþark, eftir fyrstu 6 rúnunum. Rúnir voru ekki notaðar til þess að skrifa bækur heldur í áletranir, t.d. á bautasteina, rúmbríkur og kistla og ekki síður til galdraiðkunar. Á Íslandi var aðallega notað 16 rúna róf en þessi norræna gerð rúnarófsins er eldri og að mínu mati bæði fallegri og skemmtilegri.