
Týr eða Tír er stríðsrúnin, tákn árásar, öryggis, frumkvæðis og brautruðnings. Í galdri er hún notuð þegar nornin þarf að efla hugrekki sitt til þess að takast á við nýjar aðstæður þar sem hætta getur steðjað að eða þar sem þarf að ýta hindrunum úr vegi með áhlaupi fremur en að mjaka hlutunum í rétta átt á löngum tíma.
Í rúnalestri táknar Týr herforingjann sem bíður ekki eftir að óvinurinn geri áhlaup heldur heggur um leið og ástæða gefst. Týr getur falið í sér viðvörun um hvatvísi ef Reið, Jór eða Maður koma upp með henni. Ef Þurs eða Nauð koma upp næst Tý táknar það tilgangslaust stríð.
Sunna, sólarrúnin, er sigurrún. Hún táknar sjálfstraust og sigurvissu, gott árferði, öryggi, persónutöfra og leiðtogahæfileika. Í galdri er hún notuð til að tryggja sigur í hverskyns baráttu.
Elgur er varnarrún sem táknar hin stóru horn elgsins. Elgur er allra rúna nytsamlegust því hún er mögnunarrún og er notuð í galdri til þess að magna áhrif annarra rúna og á næstum alltaf vel við. Hún er notuð til að verjast árás eða illum hug og er vinsæl sem verndargripur.
Barð er verndarrún og hentar byrjendum vel því hún gerir ekkert illt. Barð táknar vernd heimilis og einkalífs og er ekki síst notuð sem verndargripur fyrir börn og aðra smælingja.
Ýr er rún sköpunar og sveigjanleika. Ýr merkir bogi, sem er notaður til þess að skjóta ör í mark, en einnig íviður, sem er mjúkur og sveigjanlegur og gott efni í boga. Í galdri er rúnin notuð til þess að ná fram góðum samningum sem báðir aðilar hagnast á og til þess að tryggja farsæla lausn í deilumálum og finna nýjar lausnir.
Jörð er uppskerurúnin. Nafnið táknar í senn jörðina og árið og felur í sér þá hugmynd að hafi maður á annað borð sáð í akur sinn og annast hann vel sé nú komið að uppskerutíð. Hún er auðvitað ekki varanleg svo nú er rétt að safna korninu í skemmur en ekki eyða og spreða. Jörð er gæfurún sem hentar byrjendum vel.
Ís er rún kulda og stöðnunar. Í galdri er hægt að nota hana bæði til ills og góðs, til að tryggja varanlegt ástand, en ekki er hægt að mæla með því fyrir byrjendur.