
Óðal er ættarsetrið og þessi rún táknar varanlegt öryggi, heimilið, föðurlandið og fjölskylduna. Hún hentar vel þeim sem vilja galdra fram hagstæð íbúðarkaup og þeim sem eru að stofna heimili. Sagt er að ættarmót heppnist sérlega vel fyrir tilstilli Óðals.
Í rúnalögn boðar Óðal veraldlegt öryggi. Ef spyrjandinn er húsnæðislaus munu raunir hans brátt á enda og framundan er tímabil farsæls fjölskyldulífs. Sá sem hefur hrakist að heiman mun komast heim. Ef spyrjandinn vill komast til metorða skal hann leita ráða frænda sinna og forfeðra. Mun honum vel þá farnast.
Dagur er tákn upplýsingar og nýrra tíma. Sumir telja hana eiga að vera síðustu rún rúnarófsins fremur en Óðal. Í galdri er Dagur notaður til að öðlast skilning, komast yfir upplýsingar, ná áfanga eða komast frá veraldlegum aðstæðum eða sálrænu ástandi, ekki síst þunglyndi.
Ingvi/Yngvi er frjósemisrún. Hún táknar konunginn sem átti vald sitt undir því að guðirnir blessuðu ríki hans með góðu árferði. Áður fyrr þótti heillavænlegt að grafa rúnina undir þröskuldi gripahúsa til þess að auka frjósemi búfjár. Ingvi hentar vel í heillagripi og galdrafólk notar þessa rún í galdra sem eiga að tryggja fjárhagslegt öryggi og eins til frjósemisauka.
Lögur er andlegust rúna. Hún táknar vatnið sem þrátt fyrir mýkt sína er einn af frumkröftum náttúrunnar, í senn lífgefandi og eyðandi. Lögur er lækningarún og einnig notaður sem tákn þess sem finnur sér farveg fram hjá hindrunum ef hann getur ekki rutt þeim úr vegi. Þakklæti og hugarró þarf til að rúnin hafi áhrif í galdri.
Mannsrúnin er torræðasta rún norræna rúnarófsins. Hún táknar sjálfsvitund mannsins. frjálsan vilja hans og hæfni hans og skyldu til að taka sjálfstæðar ákvarðanir og líta heiminn og sjálfan sig gagnrýnum augum, án þess að vera niðurrífandi. Rúnin er notuð í galdri þegar reynir á rökhyggju og viljafestu og einnig þar sem þörf er fyrir góð samskipti.
Jór er reiðskjótinn sem ber manninn á vit nýrra ævintýra. Eða nýrra ógna ef svo ber undir. Jór er skyldur rúninni Reið en ólíkt henni táknar Jór að ef maður vill breyta aðstæðum sínum þá verður hann að gera eitthvað í því sjálfur. Í galdri er Jór notaður til þess að öðlast kjark og visku til að taka erfiða ákvörðun og sem vegvísir.
Björk er lítið harðgert tré sem stendur af sér öll áföll. Hún er gæfurún, felur í senn í sér vernd og sköpunarkraft og hentar vel í hverskyns töfragripi til happs og verndar.