Vildi Guðjón vera heilagur?

tinnaSamkvæmt upplýsingum sem ég fékk frá Umhverfisstofnun nú í dag, eru að mati jarðfræðinga um 4000 tonn af hrafntinnu í Hrafntinnuskeri. Ekki 50.000 tonn, því síður 100.000 tonn, heldur 4000, fjögurþúsund.

Hrafntinna endurnýjast á 4-5 þúsund ára fresti.

Segið svo að listamenn séu vanmetnir á Íslandi.

Skyldi Guðjón Samúelsson hafa haft nokkra hugmynd um það hve mikið (eða lítið) er til af hrafntinnu í heiminum, þegar hann ákvað að nota hana utan á Þjóðleikhúsið? Vissi einhver það á þeim tíma? Er hugsanlegt að Guðjón hefði horfið frá því að nota einmitt þessa steintegund ef hann hefði vitað að menn myndu sækja hana á friðlýst svæði?

Ég veit ekkert um Guðjón Samúelsson annað en það að hann var stórkostlegur arkitekt en það kæmi mér ekkert á óvart þótt hann væri viðræðuhæfur um annan kost ef hann væri á lífi. Hrifing Guðjóns á náttúrunni endurspeglast í verkum hans og mér er til efs að hann hafi haft meiri mætur á glórulausri hlýðni við flotta hugmynd en virðingu fyrir ríki náttúrunnar. Leiðréttið mig ef þið vitið betur.

Ræningjar

þjóðleikhúsÞjóðleikhúsið er bygging. Falleg bygging sem hýsir dásamlega menningarstarfsemi og er sjálfsagt að sýna virðingu og veita gott viðhald. Samt er það BARA bygging. Þótt það yrði málað með bónussgríssbleiku vélalakki eða klætt utan með svínshræjum, væri það ekki óafturkræf aðgerð.

Það er til yfirdrifið nóg af smekklegu klæðningarefni og engin ástæða til að ræna heilum 50 tonnum hrafntinnu af friðlýstu svæði, nema ef skyldi vera snobb og hroki.