Rún dagsins er Jór

Jór er reiðskjótinn sem ber manninn á vit nýrra ævintýra. Eða nýrra ógna ef svo ber undir. Jór er skyldur rúninni Reið en ólíkt henni táknar Jór að ef maður vill breyta aðstæðum sínum þá verður hann að gera eitthvað í því sjálfur. Í galdri er Jór notaður til þess að öðlast kjark og visku til að taka erfiða ákvörðun og sem vegvísir.

Í rúnalestri táknar Jór að spyrjandinn standi frammi fyrir tveimur eða fleiri valkostum og hann má ekki daga það lengi að taka ákvörðun því þá fer hesturinn af stað án hans. Nærliggjandi rúnir gefa til kynna hversu ánægjuleg ferðin verður.

Rún dagsins er Björk

Björk er lítið harðgert tré sem stendur af sér öll áföll. Hún er gæfurún, felur í senn í sér vernd og sköpunarkraft og hentar vel í hverskyns töfragripi til happs og verndar.

Ef Björk kemur upp ein í rúnalestri táknar hún að spyrjandinn hefur góða aðlögunarhæfileika. Hann mun komast í gegnum erfiðleika án þess að bugast. Hann hefur sérstaka getu til að snúa aðstæðum sér í hag og nýta veikustu hliðar sínar til góðs. Framundan er enginn frítími en spyrjandinn mun blómstra í þeim verkefnum sem hann fæst við og njóta þess að þroska hæfileika sína, hvort heldur er veraldlega eða andlega.

Rún dagsins er Týr

Týr eða Tír er stríðsrúnin, tákn árásar, öryggis, frumkvæðis og brautruðnings. Í galdri er hún notuð þegar nornin þarf að efla hugrekki sitt til þess að takast á við nýjar aðstæður þar sem hætta getur steðjað að eða þar sem þarf að ýta hindrunum úr vegi með áhlaupi fremur en að mjaka hlutunum í rétta átt á löngum tíma.

Í rúnalestri táknar Týr herforingjann sem bíður ekki eftir að óvinurinn geri áhlaup heldur heggur um leið og ástæða gefst. Týr getur falið í sér viðvörun um hvatvísi ef Reið, Jór eða Maður koma upp með henni. Ef Þurs eða Nauð koma upp næst Tý táknar það tilgangslaust stríð.

Rún dagsins er Sunna


Sunna, sólarrúnin, er sigurrún. Hún táknar sjálfstraust og sigurvissu, gott árferði, öryggi, persónutöfra og leiðtogahæfileika. Í galdri er hún notuð til að tryggja sigur í hverskyns baráttu.

Í rúnalestri táknar Sunna að spyrjandanum sé óhætt að taka áhættu og að bjartsýni og áræðni muni á næstunni duga honum betur en varkárni og tortryggni. Ef hann sýnir dirfsku og metnað getur hann aukið vinsældir sínar og velgengni til muna. Óvinir hans munu í flestum tilvikum leggja á flótta, en ef ekki fer hann með sigur af hólmi svo fremi sem hann nýtir herkænsku sína og  leiðtogahæfileika til fullnustu.