
Jór er reiðskjótinn sem ber manninn á vit nýrra ævintýra. Eða nýrra ógna ef svo ber undir. Jór er skyldur rúninni Reið en ólíkt henni táknar Jór að ef maður vill breyta aðstæðum sínum þá verður hann að gera eitthvað í því sjálfur. Í galdri er Jór notaður til þess að öðlast kjark og visku til að taka erfiða ákvörðun og sem vegvísir.
Í rúnalestri táknar Jór að spyrjandinn standi frammi fyrir tveimur eða fleiri valkostum og hann má ekki daga það lengi að taka ákvörðun því þá fer hesturinn af stað án hans. Nærliggjandi rúnir gefa til kynna hversu ánægjuleg ferðin verður.
Björk er lítið harðgert tré sem stendur af sér öll áföll. Hún er gæfurún, felur í senn í sér vernd og sköpunarkraft og hentar vel í hverskyns töfragripi til happs og verndar.
Týr eða Tír er stríðsrúnin, tákn árásar, öryggis, frumkvæðis og brautruðnings. Í galdri er hún notuð þegar nornin þarf að efla hugrekki sitt til þess að takast á við nýjar aðstæður þar sem hætta getur steðjað að eða þar sem þarf að ýta hindrunum úr vegi með áhlaupi fremur en að mjaka hlutunum í rétta átt á löngum tíma.
Sunna, sólarrúnin, er sigurrún. Hún táknar sjálfstraust og sigurvissu, gott árferði, öryggi, persónutöfra og leiðtogahæfileika. Í galdri er hún notuð til að tryggja sigur í hverskyns baráttu.